Aldursforseti Hörgársveitar með fjórðu umhverfisverðlaunin á ævinni

Liesel Malmquist íbúi við Skógarhlíð 29 í Hörgársveit hlaut umhverfisverðlaun fyrir garð sinn á dögu…
Liesel Malmquist íbúi við Skógarhlíð 29 í Hörgársveit hlaut umhverfisverðlaun fyrir garð sinn á dögunum. Hún er aldursforseti sveitarfélagisins, fædd árið 1939 og vinnur öll verk í garði sínum, nema hvað hún fær garðyrkjumenn til að klippa fyrir sig limgerðið. Fulltrúar úr sveitarstjórn Hörgársveitar færðu Liesel verðlaunin.

„Þetta kom mér algjörlega að óvörum, ég vissi ekki hvaða erindi þau áttu við mig núna,“ segir Liesel Malmquist íbúi við Skógarhlíð 29 í Hörgársveit. Fulltrúar úr sveitarstjórn mættu til hennar og afhentu umhverfisverðlaun Hörgársveitar fyrir fallega lóð. Liesel fékk einnig umhverfisverðlaun fyrir lóð sína við Skógarhlíð fyrir 15 árum síðan.

„Ég gat bara ekki ímyndað mér hvað þeir í sveitarstjórninni vildu mér núna, það var hringt og þeir boðuðu komu sína en ég gat ómögulegt gert mér í hugarlund hvaða erindi þeir ættu við mig,“ segir Liesel sem flaug ekki til hugar að hægt væri að fá verðlaun fyrir sömu lóð tvisvar sinnum. „En það var auðvitað gaman að fá þessi verðlaun og ég er mjög ánægð.“

Liesel og eiginmaður hennar Jóhann Malmquist fluttu í Skógarhlíð í Hörgársveit árið 1997. Jóhann lést árið 2011 og hefur Liesel séð um garðinn síðan en þau hjón áttu þetta áhugamál, garðyrkjuna sameiginlega. „Við fluttum frá Akureyri þar sem við höfum búið, vorum að minnka við okkur í húsnæði eftir að öll fjögur börnin voru flogin úr hreiðrinu,“ segir hún um flutning á milli sveitarfélaga á sínum tíma.

900 fermetra stór garður

Garðurinn er í allt 900 fermetra stór og í mörg horn að líta. „Ég hef mjög gaman af því að vera úti á sumrin og er hér alla daga eitthvað að dunda mér. Ég er orðin gömul og fer nú frekar hægt yfir, en get gert allt sjálf, nema hvað ég fæ garðyrkjumenn til að klippa fyrir mig limgerðið,“ segir hún og bætir við að hún hafi alla tíð verið heilsuhraust og sé enn við ágæta heilsu. Liesel er elsti íbúi Hörgársveitar, fædd árið 1929.

Hún segir að garðurinn sjái sér fyrir nægri vinnu að sumarlagi. Hún er að mestu með fjölærar plöntur í garði sínum og kaupir til viðbótar sumarblóm. „Ég var með eigið gróðurhús þegar við áttum heima í Hólsgerði 7 og þar ræktaði ég öll mín sumarblóm sjálf, en núna kaupi ég þau bara.“

Gefur mikið að vinna í fallegum garði

Lisel og Jóhann fengu verðlaun fyrir fallegan garð í Hólsgerði 7 á sínum tíma. Áður höfðu þau byggt hús við Ásabyggð 3 á Akureyri og fengið viðurkenningu fyrir fallegan garð við húsið árið 1960, þannig að umhverfisverðlaunin nú eru þau fjórðu sem hún hefur fengið fyrir starfs sitt við að fegra umhverfið um ævina. „Ég hef svo óskaplega gaman af þessu, það gefur mér mikið að vinna í fallegum garði,“ segir hún.

Myndir á vefsíðu Hörgársveitar

Nýjast