„Ákváðum að bæta frekar við en draga saman“
„Við ákváðum að fara frekar þá leið að bæta við fremur en draga saman,“ segir Hörður Guðmundsson forstjóri Flugfélagsins Ernis. Félagið hefur nú bætt við ferðum á áætlun sinni milli Reykjavíkur og Húsavíkur, flýgur 10 ferðir í viku í stað 6 áður. Fleiri ferðir hafa verið í boði allan október mánuð og hafa um 800 manns flogið með félaginu á þeim tíma.
Hörður segir að farnar séu tvær ferðir milli staða virka daga, en með því móti geti viðskiptavinir nýtt sér að skjótast á milli og sinna erindum yfir daginn og komist heim fyrir kvöldið. Áfram er ein ferð í boði á föstudögum og sunnudögum. Félagið notar tvær gerðir véla í Húsavíkurflugið, 19 sæta Jetstream skrúfuþotu og Dornier 328 sem einnig er skrúfuþota, mjög hraðfleyg að sögn Harðar og er hálftíma á milli. Hún tekur 32 í sæti.
Yrðum ánægð með að bæta 15 til 20% við
Dornier 328 skrúfuþota Ernis á Húsavíkurflugvelli í Aðaldal. Mynd/Ernir
„Við vorum með þó nokkuð af lausum sætum, um 900 í allt, í þessum ferðum í október. Sætanýtingin er um það bil 50%. Við erum á fullu í að kynna þennan kost og verðum ánægð ef við náum 15 til 20% betri sætanýtingu,“ segir Hörður. Dæmið liti vissulega betur út peningalega ef farþegar yrðu fleiri. „Þetta er eini leggurinn sem ekki nýtur ríkisstyrkja,“ segir hann, en félagið fær til að mynda styrk fyrir flug sitt til Hornafjarðar. „Við fáum þá skýringu að það sé hægt að taka ríkisstyrktan strætó frá Húsavík til Akureyrar og ná flugi þaðan.“
Hann segir kórónuveirutímabilið hafa komið illa við rekstur flugfélagsins en undanfarið hafi allt lifnaði vel við. Hann er bjartsýnn á framtíð Húsavíkurflugsins og nefnir t.d. að ferðafólk nýti sér að fljúga beint til Húsavíkur til að fara þar í hvalaskoðun, hestaferðar eða skoða náttúruperlur á svæðinu. „Við heyrum líka að fólk í nágrannabyggðum Húsavíkur er ánægt að gera tekið flug frá Húsavík og spara sér klukkutíma í akstri miðað við að flogið sé frá Akureyri,“ segir Hörður.
/MÞÞ