Akureyringur sendir frá sér barnabók

Hildur Loftsdóttir les upp í útgáfuhófi í Eymundsson Akureyri. Mynd/Alfa Aradóttir.
Hildur Loftsdóttir les upp í útgáfuhófi í Eymundsson Akureyri. Mynd/Alfa Aradóttir.

Akureyringurinn Hildur Loftsdóttir hefur sent frá sér barnabókina Eyðieyjan-urr,öskur, fótur og fit. Bókin fjallar um tvær ólíkar systur, þær Ástu og Kötu, sem fara í ferðalag ásamt foreldrum sínum, ömmu og afa á eyjuna Hrappsey í Breiðafirði þar sem afi þeirra hafði búið sem barn. Þar kynnast þær álfastelpunni Unu, sem býr í hól við hliðina á bóndabænum, og var vinkona afa þeirra. Ásamt Unu og bróður hennar Arnljóti, ferðast þær systur aftur í tíma, þegar afi þeirra var fárveikt barn, og taka þau öll fjögur höndum saman um að bjarga lífi litla afans.

Verkið byggir í raun á þremur sögum sem fléttað er saman; sannri sögu föður höfundar sem bjó sem barn í Hrappsey og var nær dauða en lífi, þjóðsögunni um Hildi álfadrottingu og svo uppdiktaðri sögu sem gerist í nútímanum og er um þær systur sem fara í ferðalag um gamla heima afa síns og álfadrottningarinnar.

„Bókin á fyrst og fremst að vera skemmtileg og ná til sem flestra lesenda. Samkvæmt könnunum um læsi barna, segja þau sjálf að þau vilji að bækur séu fyndnar, spennandi og að aðalsögupersónurnar séu úr samtímanum. Einnig skipti máli að bókin sé ekki of löng, á einföldu en vönduðu máli og að það sé meira um samtöl en lýsingar í textanum. Því hefur öllu  verið fylgt hér,“ segir um bókina.

Hildur Loftsdóttir er með BA próf í kvikmyndafræðum frá Université de Provence Aix-Marseille III, BA gráðu í almennri bókmenntafræði og skapandi skrifum frá HÍ. Í gegnum árin hefur Hildur tekið hin ýmsu ritnámskeið í barna- og unglingabókaskrifum, myndabókaskrifum, leikritaskrifum, sjónvarps- og kvikmyndahandritaskrifum í Reykjavík, Los Angeles og New York.

Hildur hefur verið blaðamaður við Morgunblaðið frá 1997 fram á síðasta ár með 7 ára hléi. Þrátt fyrir að hafa barnabækur, skrif, sögumennsku og íslenska tungu að sínu aðal áhugamáli og starfi seinustu 25 ár, er þetta fyrsta bókin sem Hildur lætur frá sér til útgáfu.

Nýjast