20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Akureyringum býðst innan tíðar tíföldun á internethraða
„Við þurfum að horfa fram á veg í uppbyggingu okkar fjarskiptainnviða bæði til fyrirtækja og heimila. Þörfin fyrir öflugri nettengingar heimila eykst hratt með hverju ári. Heimilum á Akureyri mun nú standa til boða gegnum fjarskiptafélög þeirra tenging með internethraða allt að 10 gígabita á sekúndu í báðar áttir. Það er tíföldun þess sem best þekkist í dag og er gríðarstórt stökk fyrir tengingar heimila,“ segir Erik Figueras Torras, forstjóri Mílu, en hann tilkynnti fyrr í vikunni um að Míla muni bjóða Akureyringum tíföldun á internethraða, svokallað 10X. Með því er fyrirtækið að bjóða sína bestu þjónustu í bæjarfélaginu sem felur í sér meiri hraða og betri upplifun endanotenda.
Í sumar kynnti Míla viðskiptavinum sínum sem eru fjarskiptafyrirtækin á Íslandi að fyrirtækið byði 10x meiri hraða á ljósleiðara Mílu til heimila. Sú þjónusta yrði fyrst í boði á höfuðborgarsvæðinu en síðar myndi landsbyggðin bætast við. Sú uppbygging er nú hafin á Akureyri.
Með 10x geta fjarskiptafyrirtækin boðið viðskiptavinum sínum, sem eru heimilin og fyrirtækin í landinu mun öflugri internettengingu en hingað til hefur verið í boði. Með 10x geta heimilin fengið að minnsta kosti 2,5 gígabita á sekúndu og allt upp í 10 gígabita á sekúndu, sem er tífaldur hraði á við núverandi tengingu.
Rík þörf fyrir 10x
Tíföldun hraða, afkastaaukning og innleiðing nýrrar tækni í ljósleiðarakerfum Mílu er afar þýðingarmikil fyrir heimilin í landinu. Sjónvarpsþjónusta í miklum gæðum, leikjaspilun, eða fjarvinna með mikið gagnamagn og gagnvirkni krefst sítengingar við net og mikils hraða. Hægt verður að tengja mörg tæki við netið á samtímis án þess að það hægi á sér.
Áætlað hefur verið að á næstu árum séu allt að 20 virk tæki á hverju heimili sem krefjast nettengingar. Símar og tölvur ásamt sjónvarpstækjum og myndlyklum, ryksugu vélmennum og svo framvegis. Myndstreymi 4K eða 8K gæðum, gervigreind, sýndarheimar og aukin notkun skýjalausna kallar á betri tengingar.