„Akureyringar og Norðlendingar eru fremst meðal jafningja í þessum málaflokki“

Frá vinstri: Pétur Ásgeirsson sendiherra, Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, Embla Eir Oddsdóttir, frk…
Frá vinstri: Pétur Ásgeirsson sendiherra, Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, Embla Eir Oddsdóttir, frkvstj. Norðurslóðanetsins, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Mynd: Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Eyjólfur Guðmundsson, formaður stjórnar Norðurslóðanets Íslands og rektor Háskólans á Akureyri, hafa undirritað endurnýjaðan samstarfssamning til fimm ára. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Undirritunin fór fram á Akureyri í gær. Guðlaugur Þór sagði við þetta tækifæri að áframhaldandi samstarf við Norðurslóðnetið væri mikið fagnaðarefni. „Á Akureyri hefur byggst upp sterkur norðurslóðaklasi. Við væntum þess að Norðurslóðanetið leiði þróun hans áfram í samræmi við nýja norðurslóðastefnu sem Alþingi samþykkti í vor. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir hve þróttmikil starfsemin er hér undir einu þaki með Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, skrifstofur tveggja af vinnuhópum Norðurskautsráðsins, skrifstofu Alþjóða Norðurslóðavísindanefndarinnar (IASC)og Háskólann á Akureyri í broddi fylkingar. Við Íslendingar erum öll norðurslóðabúar en Akureyringar og Norðlendingar eru fremst meðal jafningja í þessum málaflokki.“

Embla Eir Oddsdóttir forstöðumaður Norðurslóðanetsins og Pétur Ásgeirsson, nýr fulltrúi Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins, voru einnig viðstödd undirritun samningsins.

Norðurslóðanet Íslands var stofnað árið 2013 til að vera miðstöð norðurslóðarannsókna og samstarfsvettvangur þeirra sem vinna að málefnum norðurslóða. Norðurslóðanetið er sjálfseignarstofnun sem hefur frá upphafi notið kjölfestufjármögnunar frá ríkinu í formi samningsbundinna rekstrarframlaga frá utanríkisráðuneytinu. Norðurslóðanetið hefur auk þess stutt við nýafstaðna formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu með ýmsum hætti, svo sem við viðburðahald, leitt mikilvæg verkefni innan Norðurskautsráðsins fyrir Íslands hönd og verið í forsvari fyrir Ísland í einum af starfshópum ráðsins.

Á gildistíma nýja samningsins er sérstaklega horft til þess að Norðurslóðanetið styðji við innleiðingu nýrrar norðurslóðastefnu Íslands sem Alþingi samþykkti einróma 19. maí síðastliðinn. Sérstaklega er horft til 19. töluliðar stefnunnar sem kveður á um að Akureyri skuli efld enn frekar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi, meðal annars með stuðningi við mennta- og rannsóknastofnanir og þekkingarsetur og aukna áherslu á innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða.

Nýjast