Akureyringar kaupa danskt nýsköpunarfélag
COVID hefur hraðað stafrænni vegferð í sölustarfi ⠂Styrkir vöxt erlendis og vöruframboð ⠂Yfir 50.000 notendur um allan heim
Íslenska sprotafyrirtækið CrankWheel hefur keypt rekstur danska nýsköpunarfélagsins Accordium. Í tilkynningu kemur fram að innifalið í kaupverðinu, sé yfirtaka á tæknilegum innviðum, hugverkaréttindum, viðskiptastofni og vörumerki Accordium. Kaupverðið er ekki gefið upp.
„CrankWheel hefur hingað til boðið upp á lausn sem hjálpar fólki að deila skjáborði yfir í hvaða tæki sem er án uppsetningar viðtakanda. Accordium hefur annars vegar einfaldað ferlið í kringum rafrænar undirskriftir og hins vegar boðið upp á myndbandslausn sem hjálpar notendum að ljá tölvupóstum og lendingarsíðum persónulegri blæ,“ segir í tilkynningunni.
CrankWheel er með yfir 50.000 notendur í 6 heimsálfum. Í tilkynningunn segir að yfirtakan styrki vöruframboð og þjónustu til núverandi viðskiptavina en styðji jafnframt við frekari vöxt á erlendum mörkuðum þar sem áhugi á stafrænum lausnum í sölu og þjónustustörfum hefur aukist gríðarlega í kjölfar heimsfaraldursins. Þessi þróun muni halda áfram þrátt fyrir að faraldurinn sé í rénun og afléttingu á samskiptatakmörkunum.
„Heimsfaraldurinn kom af stað og hraðaði stafrænni þróun flestra atvinnugreina. Með kaupunum getum við hjálpað okkar viðskiptavinum enn frekar að auka afköst og árangur sölufólks með stafrænum lausnum. Núna getum við boðið lausnir sem koma að næstum öllu söluferlinu. Allt frá því að gera fyrsta tölvupóstinn persónulegri, gera símtöl skilvirkari og yfir í að gera undirritun samninga einfaldari og skjótari,” segir Jói Sigurðsson, stofnandi og framkvæmdastjóri CrankWheel
„Þeir viðskiptavinir sem fóru að nota CrankWheel vegna ástandsins hafa séð að okkar lausn skilar þeim meiri árangri. Sölufólk þeirra mun í auknum mæli notast við fjarsölutækni í stað þess að hitta alla viðskiptavini. Þessi viðbót við okkar vöruframboð mun styrkja vöxt okkar erlendis og hjálpar okkur á þeirri vegferð að stytta, auðvelda og einfalda söluferlið hjá okkar notendum,” segir Þorgils Sigvaldason, meðstofnandi og tekjustjóri CrankWheel.
CrankWheel var stofnað árið 2015 af Jóa Sigurðssyni og Þorgils Sigvaldasyni, æskufélögum frá Akureyri. Jói starfaði lengi vel hjá Google en Þorgils hefur langa reynslu af sölustörfum í fjármála- og tryggingageiranum.
Ólík reynsla þeirra er grunnurinn að CrankWheel; Jói hafði unnið við þróun á Chrome vafranum en Þorgils hafði margoft keyrt langar leiðir til viðskiptavina með fartölvu til að sýna þeim skjáinn. Úr varð lausn sem gerir sölufólki kleift að deila skjámynd í rauntíma til viðskiptavina án uppsetningar eða skráningar.
Accordium var stofnað í Danmörku árið 2016 af fyrrum yfirmönnum hjá Trustpilot. Tilgangur vörumerkisins var að stytta söluferlið með því að einfalda undirritun samninga með rafrænum undirskriftum sem geta farið fram við lok sölusímtals. Í kjölfarið var þróuð lausn sem gerir sölufólki kleift að taka upp stutt myndbönd til að fella inn í tölvupósta og gera þá persónulegri.