Akureyringar heimsmeistarar í listdansi
Úrvalshópur frá dansskólanum Steps Dancecenter á Akureyri varð í gær heimsmeistari í jazzdansi. Hópurinn sigraði í flokki Senior Large Group Jazz á heimsmeistaramótinu Dance World Cup en þetta mun vera í fyrsta sinn sem Akureyri eignast heimsmeistara í listdansi. Greint er frá þessu á Facebooksíðu danskólans.
Heimsmeistaramótið fer nú fram í Telford á Englandi og taka um 120.000 keppendur frá 62 löndum þátt á mótinu. Vegna Covid gátu þeir danshópar sem ekki höfðu tök á að ferðast til Englands sent inn myndbandsupptöku af dansatriðinu sínu. Akureyrsku hóparnir frá Steps Dancecenter sendu inn myndbönd af sínum atriðum.
Hópurinn dansaði verk eftir Lindu Ósk Valdimarsdóttur, New Dawn, og eru dansararnir þau Álfrún Freyja Heiðarsdóttir, Arna Sirrý Erlingsdóttir, Birta Ósk Þórólfsdóttir, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Bjarney Vignisdóttir, Diljá María Jóhannsdóttir, Ellý Sæunn Ingudóttir, Heiðdís Ósk Valdimarsdóttir, Helga Sóley G. Tulinius, Hildur Sigríður Árnadóttir, Karen Birta Pálsdóttir, Marín Ósk Eggertsdóttir, Sara Hlín Birgisdóttir og Sunneva Kjartansdóttir.
Tvö atriði eiga eftir að keppa frá Steps Dancecenter á morgun, þriðjudaginn 17. ágúst.