Akureyringar geta brátt deilt bíl

Deilibíllinn verður staðsettur við Skipagötu í miðbæ Akureyrar (græni kassinn).
Deilibíllinn verður staðsettur við Skipagötu í miðbæ Akureyrar (græni kassinn).

Akureyrarbær er að hefja þátttöku í tilraunaverkefni sem snýst um að meta áhrif þess að innleiða deilibílaþjónustu hjá sveitarfélaginu, akureyri.is greinir frá þessu.

Verkefnið er leitt af verkfræðistofunni EFLU í samstarfi við Zipcar deilibílaleigu, Akureyrarbæ, Garðabæ og Hafnarfjörð með styrk frá rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar.

Markmiðið er að efla vöxt deilibíla á Íslandi, enda hafa rannsóknir sýnt að þeir geti verið mikilvægur liður í að auðvelda íbúum að lifa án einkabílsins og stuðla þannig að breyttum ferðavenjum. Deilibílar eru vel þekkt fyrirbæri víða um heim en hér á landi hefur slík þjónusta aðeins verið í boði miðsvæðis í Reykjavík og í Kópavogi. Tilraunaverkefnið er liður í því að innleiða deilibílaþjónustu í fleiri hverfum og bæjum, þar á meðal á Akureyri.

Einn Zipcar deilibíll verður aðgengilegur íbúum á Akureyri í að minnsta kosti sex mánuði í tilraunaskyni. Vonast er til að móttökurnar verði góðar og rekstrargrundvöllur áframhaldandi deilibílaþjónustu á Akureyri verði tryggður í kjölfarið enda eru sex mánuðir oft sá tími sem tekur fyrir deilibíl að verða sjálfbær í rekstri.

Framlag Akureyrarbæjar felst fyrst og fremst í úthlutun og merkingu bílastæðis fyrir einn deilibíl og aðstoða eins og kostur er við innleiðingu þjónustunnar. Deilibíllinn á Akureyri verður staðsettur á bílastæðinu við Skipagötu (sjá mynd). Þjónustan virkar þannig að fólk bókar bílinn, sækir hann og skilar svo aftur á sama stað í sérmerkt bílastæði deilibílaþjónustunnar. Hér eru nánari upplýsingar um þjónustuna

Umrætt bílastæði verður merkt á næstu dögum og í kjölfarið má búast við að bíllinn verði tilbúinn til leigu. Deilibíllinn er áhugaverð viðbót við fjölbreytta samgöngukosti sem íbúum og gestum Akureyrar stendur til boða, svo sem gönguferðir, hjól, rafskútur og gjaldfrjálsar almenningssamgöngur.

Nýjast