Akureyrarflugvöllur Brýnt að bæta nýtt aðflug úr suðri - Ekki kostnaðarsamt

Njáll Trausti Friðbertsson
Njáll Trausti Friðbertsson

Á fundi Sjálfstæðisfélags Akureyrar síðastliðið fimmtudagskvöld kom fram í máli Njáls Trausta Friðbertssonar alþingismanns að hann hefði töluverðar áhyggjur af því að nýtt aðflug úr suðri, það er þegar lent er til norðurs, yrði ekki tilbúið þegar EasyJet hæfi flug sitt í lok október.

Í samtali við Vikublaðið sagði Njáll Trausti að:

,,Um er að ræða svokallað ,,Advanced RNP“ aðflug sem byggist á GPS merkjum. Með tilkomu þess má bæta að flugslágmark úr 1250 fetum í 500 fet. Í dag er málum þannig háttað að í svokölluðu ,,localizer“ aðflugi fyrir minni gerðir af farþegaþotum þurfa flugmenn að ákveða í 1250 feta hæð hvort þeir hyggist klára aðflugið og lenda eða hefja fráhvarfsflug, það er að hætta við lendingu. Það ákveða þeir með tilliti til skýjahæðar og flugskyggnis. Þessir punktur þar sem þarf að taka þessa ákvörðun er í dag 8 km frá brautarenda, við Hrafnagil. Hér er rétt að geta þess að  sjúkraflug, innanlandsflug og einkaþoturnar hafa aðra möguleika og geta nýtt sér önnur aðflug með öðrum aðflugs lágmörkum. Nýja aðflugið mun þó einnig nýtast þeim vel“.

Með nýju aðflugi er reiknað með að þessi punktur færist mun nær flugbrautarendanum og verður í einungis í um 2 km fjarlægð í stað 8 km. Eins og áður kom fram þá verður lágmarkið fyrir aðflugið einungis 500 fet í stað 1250 feta.

Af hverju er mikilvægt að koma þessa nýja aðflugi í notkun?

,,Þetta gengur jú allt út á að hægt sé að lenda í lágskýjuðu veðri og þegar skyggni er takmarkað og auðvitað mjög mikilvægt þegar flogið er að vetrarlagi í verri veðurskilyrðum.

Kostar trúlega um 10 milljonir

Það er ekki mikill kostnaður fólginn í að koma þessu aðflugi upp eða öðru hvoru megin við 10 milljónir. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ekki er þörf á nýjum búnaði á jörðu niðri heldur byggist aðflugið á GPS merkjum og tækjabúnaði í flugvélunum sjálfum.

Lykilatriðið í öllu þessu máli er jú auðvitað það að bæta aðflugið fyrir farþegaþotur þegar braut 01 er í notkun og þær geti lent til norðurs og þannig bæta nýtingarhlutfallið fyrir farþegarþoturnar.  Á undanförnum árum hafa aðflugin fyrir braut 19 það er þegar lent er til suðurs verið bætt mikið og nú er það forgangsmál að klára þetta mál fyrir fyrsta flug EasyJet sem er áætlað í lok október“.  Sagði Njáll að endingu

 

 

 

Nýjast