Akureyrarbær styrkir snjótroðarakaup
Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að styrkja Skógræktarfélag Eyfirðinga með 15 milljón króna framlagi til kaupa á nýjum snjótroðara. Gamli troðarinn sem þjónað hafði skíðagöngufólki dyggilega í áraraðir lagði upp laupana í fyrravor.
Skógræktarfélagið hefur augastað á snjótroðara sem kostar um 35 milljónir króna. Söfnunarsjóðurinn bólgnaði aðeins út eftir að Akureyrarbær ákvað að styrkja félagið og eins fékk sjóðurinn 2 milljónir króna úr pokasjóði í síðustu viku.
Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins segir að áður en framlag Akureyrarbæjar kom til hafi framlög aðallega komið frá daglegum notendur Kjarnaskógar. Stjórn félagsins hefur skipulega unnið að því nú í haust að afla styrkja frá fyrirtækjum. Vilyrði um styrki liggja fyrir hér og þar segir Ingólfur og því gæti talan hækkað hratt.
Risastór lýðheilsumiðstöð
„Við erum þessa dagana að afla tilboða í tæki sem gerir okkur kleift að sinna verkefninu, að troða skíðabrautir í Kjarnaskógi, til framtíðar,“ segir hann. „
„Skógurinn er risastór lýðheilsumiðstöð, opin almenningi allt árið án endurgjalds. Í venjulegum norðlenskum snjóavetri eru stígar og slóðir ófærar frá hausti til vors og vel búinn snjótroðari því lykiltæki fyrir félagið svo þetta mikilvæga mannvirki nýtist til fulls fyrir samfélagið.
/MÞÞ