Akureyrarbær með skilaboð í Glasgow
Bæjarstjórinn á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, sendi yfirlýsingu Akureyrarbæjar um markmið sveitarfélagsins á sviði vistvænna farartækja með rafrænum hætti á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP26 sem stendur nú yfir í Glasgow.
Samgöngudagur ráðstefnunnar var í gær og af því tilefni var opnuð heimasíða þar sem birt er samgönguyfirlýsing COP26 og yfirlýsingar ríkisstjórna, sveitarfélaga og borga, fjárfesta, bílaframleiðenda og annarra sem málið varðar.
Samgönguyfirlýsing COP26 frá Akureyrarbæ hljóðar svo: „Saman vinnum við að því að allri sölu á nýjum bílum og farartækjum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði hætt um víða veröld fyrir árið 2040 og ekki síðar en 2035 á leiðandi mörkuðum."