Akureyrarbæjar krefst þess að ríkið kaupi eignarhluta þess í hjúkrunar- og dvalarheimilum

Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs Akureyrar
Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs Akureyrar

„Það er algjörlega ótækt að ríkið hagi sér með þessu hætti. Við höfum ítrekað óskað eftir viðræðum um framtíð fasteigna hjúkrunar- og dvalarheimila en við fáum bara alls engin svör,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs Akureyrar, en ráðið hefur krafist þess að ríkisvaldið bregðist við án tafa og kaupi eignarhluta Akureyrarbæjar í þessum mannvirkjum, Hlíð og Lögmannshlíð.

Borga enga leigu

Akureyrarbær, ásamt þremur sveitarfélögum öðrum, Vestmannaeyjum, Fjarðarbyggð og Höfn í Hornafirði ákváðu í kjölfar vanfjármögnunar af hálfu ríkisins að endursemja ekki um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila. Á Akureyri varð niðurstaðan sú að samið var við Heilsuvernd ehf. um rekstur heimilanna í bænum. Ríkið ákvað jafnframt að Heilsuvernd þyrfti ekki að greiða leigu vegna húsnæðisins. „Við eigum stóran hluta í þessum eignum en ríkið telur sig geta ráðskast með þær án nokkurs samráðs við okkur. Það eru mjög undarleg vinnubrögð,“ segir Guðmundur Baldvin.

Heilsuvernd gerði tilboð í fasteignir hjúkrunar- og dvalarheimilanna í nóvember síðastliðnum og hljóðaði það upp á um þrjá milljarða króna. Akureyrarbær óskaði í framhaldinu eftir því að ræða við ríkið enda eru þessar fasteignir í sameiginlegri eigu ríkis og bæjar. Akureyrarbær á sumar eignir, t.d. elstu bygginguna á Hlíð og bærinn greiddi 30% í uppbyggingu á Vesturhlíð á sínum tíma. Þá fjármagnaði Akureyrarbær uppbyggingu Lögmannshlíðar og leigir ríkinu það húsnæði. 

Ríkið á að eiga þessar eignir 100%

„Þegar tilboð barst í eignirnar þótti okkur upplagt að selja. En því miður þá strandar allt á því að ríkið kemur ekki að borðinu til að ræða framtíð þessara mannvirkja. Það er að mínu mati lang skynsamlegast að ríkið eigi þessar fasteignir 100%, en ekki í samkrulli við bæjarfélagið. Það er  eiginlega  algjör tímaskekkja að hafa þann hátt á,“ segir Guðmundur Baldvin.

/MÞÞ

Nýjast