Áhyggjur fólks af fjárhagsstöðu sinni aukast

Björn Snæbjörnsson
Björn Snæbjörnsson

„Áhyggjur fólks af fjárhagsstöðu sinni eru aftur að aukast, en við sáum þær fara minnkandi í fyrra. Staðan núna er líkari því sem hún var fyrir kórónuveiruna,“ segir Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju. Félagið gerði ásamt Afli,  starfsgreinafélagi á Austurlandi könnun á stöðu sinna félagsmanna. Niðurstaða er sú að  fjárhagsáhyggjur fólks hafa aukist, einkum í hópi þeirra sem lægst hafa launin eða eru ekki starfandi. Fólk í yngstu aldurshópunum virðist búa við þrönga stöðu.

Fram kom í könnuninni að rúmur þriðjungur svarenda hafði síðustu 12 mánuði frestað eða hætt við að fara til tannlæknis af fjárhagsástæðum. Þá höfðu 22% frestað eð hætt við læknisheimsókn af sömu ástæðu og 17% höfðu slegið því á frest að kaupa lyf eða hætt við slík kaup.

Vonbrigði að sjá þetta bakslag

Björn segir þetta áþekkar tölur og komu fram í könnun árið 2018, en eftir það virtust áhyggjur manna af peningamálunum vera á undanhaldi. „Þetta var á réttri leið, fór batnandi, en núna virðist koma bakslag og það eru mikil vonbrigði. Laun höfðu hækkað og eins má gera ráð fyrir að útgjöld hafi dregist saman í faraldrinum sem skýrir kannski að fólk hafði minni áhyggjur af stöðunni í fyrra, en það er erfitt að sjá þessa niðurstöðu. Að svo stór hópur er að neita sér um læknisheimsóknir,“segir Björn. Það eru einkum fólk í yngsta aldurshópnum, frá 25 til 35 ára sem hefur neitað sér um að fara til tannlæknis og eða til lækna.

„Það eru einkum þeir sem eru á lægstu laununum sem fresta þessum hlutum, við sjáum að almennt dregur úr þessum frestunum eftir aldri. Þetta segir okkur að staðan í yngsta aldurshópunum er önnur en hjá þeim sem eldri eru, þetta er fólk með ung börn og forgangsröðun þess er greinilega önnur en hjá þeim eldri,“ segir Björn.

Veganesti inn í kjaraviðræður

Hann bætir við að staðfesting þess að hart sé í ári hjá ungu láglaunafólki sé að margir hafi svarað því til að helstu áherslur félagsins í komandi kjaraviðræður við sína viðsemjendur ætti að vera hærri barnabætur. „Það hefur ekki áður verið nefnt í neinu mæli meðal okkar félagsmanna, þetta er í fyrsta skipti sem fólk vill leggja áherslu á hærri barnabætur,“ segir Björn. Einnig nefndu félagsmenn að áherslur í næstu kjarasamningaviðræðum ættu að beinast að því að lækka skatta og yngra fólk nefndi einnig að auðvelda ætti ungu fólki að eignast eigið húsnæði.  „Við förum með þetta veganesti inn í næstu kjaraviðræður, en undirbúningur þeirra er þegar hafinn,“ segir hann. Eldri aldurhópar benda fremur á að verja kaupmáttinn.

 /MÞÞ

Nýjast