Ágætis uppskera eftir mikið þurrkasumar

Anna Bára Bergvinsdóttir kartöflubóndi á Áshóli í kartöflugeymslu sinni.
Anna Bára Bergvinsdóttir kartöflubóndi á Áshóli í kartöflugeymslu sinni.

Kartöflubændur í Eyjafirði eru um þessar mundir á klára upptökustörfin.  Veður hefur að mestu verið ágætt, hlýtt en nokkuð hvass og moldrok sem því fylgir hefur gert starfsfólkinu lífið leitt. Uppskera er ágæt og einkum í ljósi þeirra miklu þurrka sem ríkjandi voru á liðnu sumri.

Anna Bára Bergvinsdóttir kartöflubóndi á Áshóli í Grýtubakkahreppi segir að þar á bæ hafi menn verið aðeins fyrr á ferðinni en í meðalári og uppskera sé ágæt,  „sérstaklega þegar mið er tekið af gríðarlegum þurrkum hér í sumar,“ segir hún. Uppskera virðist vera svipuð að magni og var í fyrrahaust. Að mestu leyti hefur verið tekið upp í blíðskaparveðri, en hvassviðri og tilheyrandi moldrok var upptökufólki til ama nokkra daga.

Sátt við uppskeruna

Jón Helgi Helgason hjá Þórustaðakartöflum á Þórustöðum segir að byrjað hafi verið að taka upp 20. Ágúst og eitthvað tekið upp hvern dag upp frá því. „Við erum á lokametrunum, þetta er að klárast hjá okkur.  Uppskeran er þokkaleg og við erum sátt. Maður var ekki alveg klár á við hverju mátti búast eftir langvarandi þurrka og hlýindi síðastliðið sumar. Vissulega eru frekar fáar kartöflur undir grösunum miðað við það sem hefði getað orðið í þessum hlýindum. Í heildina sýnist mér uppskera vera í meðallagi góð,“ segir Jón Helgi.

/mþþ

kARTÖFLIU

 

Nýjast