Áform um byggingu hótels í landi Ytri-Varðgjár í Eyjafjarðarsveit verða kynnt á opnum fundi

Gert er ráð fyrir að reisa allt að 5 hæða hótel með allt að 120 herbergjum auk bílageymslu og þjónus…
Gert er ráð fyrir að reisa allt að 5 hæða hótel með allt að 120 herbergjum auk bílageymslu og þjónusturýmis. Móttaka og veitingastaður verða á jarðhæð og heilsulind og líkamsræktarstöð á þriðju og fjórðu hæð.

Áform um byggingu hótels í landi Ytri-Varðgjár í Eyjafjarðarsveit verða kynnt á opnum fundi í matsal Hrafnagilsskóla næstkomandi þriðjudagskvöld, 27. júní en hann hefst kl. 20. Fulltrúar sveitarstjórnar og aðstandendur verkefnisins kynna skipulagstillögur og svara fyrirspurnum fundargesta.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkt í vor að vísa drögum að aðal- og deiliskipulagstillögu vegna breytinga á aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018 til 2030 í kynningu, þ.e. breytingu á deiliskipulagi baðstaðar í landi Ytri-Varðgjár, Skógarbaðanna.  Aðalskipulagsbreytingin lýtur að því að verslunar- og þjónustusvæði sem þar er stækkar til suðurs og nær yfir hluta sem í núverandi skipulagi er skilgreint sem íbúðarsvæði, skógræktar- og landgræðslusvæði.  Skipulagssvæðið stækkar úr 1,6 ha í 5,3.

Fimm hæðir og allt að 120 herbergi

Miðar breytingin að því að á innan svæðisins verði heimilt að byggja hótel. Gert er ráð fyrir að reisa allt að 5 hæða hótel með allt að 120 herbergjum auk bílageymslu og þjónusturýmis. Aðkoma að hótelinu verður sunnan byggingareitsins og bílastæði að vestan og sunnanverðu. Þá er gert ráð fyrir laug sem nær frá núverandi laug Skólabaðanna að hótelinu. Um 100 metrar verða á milli baðanna og að hótelinu.

Á jarðhæð hótelsins verður móttaka og veitingastaðir og þá er gert ráð fyrir heilsulind og líkamsrækt á hluta þriðju og fjórðu hæðar. Fimmta hæðin verður aðeins yfir miðhluta byggingarinnar og þar er ráðgert að hafa bar, fundarherbergi og verönd. Útsýni úr hótelherbergjum verður til vesturs og suðurs, yfir Akureyri og inn Eyjafjörð.

Helsta aðdráttarafl hótelsins er talið vera að það er byggt inni í skóginum og að Skógarböðin eru í göngufæri við það. Lögð er áhersla á að mannvirki falli sem best að landslagi og raski á skóginum verður haldið í lágmarki.  Lóð hótelsins verður um einn hektari að stærð.

Möguleg jákvæð áhrif eru samfélagsleg og hagræn

Samráð hefur verið haft við Skógræktarfélag Eyfirðinga vegna rasks sem verður á skógi vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Fram kemur í skipulagstillögu sem finna má að vefsíðu Eyjafjarðarsveitar að niðurstaða umhverfisskýrslu  sé sú að fyrirhuguð uppbygging sé ekki talin hafa veruleg umhverfisáhrif. Möguleg neikvæð áhrif eru á gróður auk áhrifa á minjar. Möguleg jákvæð áhrif eru samfélagsleg og hagræn. Með uppbyggingunni eflist atvinnulíf á svæðinu og mörg störf verða til á hótelinu með opnun þess. Gera megi ráð fyrir að áhrif á íbúaþróun í Eyjafjarðarsveit verði jákvæð, væntanlegt starfsfólks hótelsins muni í einhverjum tilfellum sækjast eftir að setjast að í sveitarfélaginu. Þá eru jákvæð áhrif möguleg þar sem verið er að skapa nýjan áfangastað fyrir ferðaþjónustu þar sem hægt verður að njóta aðliggjandi náttúru.

Nýjast