Áfangasigur í áformum um lofthreinsiver á Bakka

Mynd/Carbon Iceland
Mynd/Carbon Iceland
  • Þrjú til fimm hundruð störf verði til – Samið við þýskan tæknirisa


 

Greint var frá því í október á síðasta ári að félagið Carbon Iceland ehf. hefði áhuga á því að reisa lofthreinsiver á Bakka við Húsavík. Verinu er ætlað að hreinsa koltvísýring beint úr andrúmsloftinu, til áframframleiðslu. Norðurþing hefur til umráða 90-100 hektara lands innan skipulags iðnaðarsvæðis á Bakka, ætlað til frekari uppbyggingar vistvæns iðnaðar.

Carbon Iceland tilkynnti á dögunum að félagið hafi nú undirritað samkomulag við Siemens Energy í Þýskalandi um samstarf og tæknilega útfærslu á föngun koltvísýrings og framleiðslu eldsneytis á Bakka.

 Ætla að stórauka matvælaframleiðslu

Áform fyrirtækisins gera ráð fyrir að fanga yfir milljón tonn af koltvísýringi þegar fullum afköstum verði náð. Auk þess er stefnt á framleiðslu loftslagsvænna vara, s.s grænt eldsneyti og græna kolsýru. Markmiðið sé meðal annars að stórauka matvælaframleiðslu á Íslandi.

Þegar áformin voru kynnt fyrir tæpu ári síðan miðuðu þau að því að framkvæmdir myndu hefjast árið 2023. Áætlað er að verkefnið muni kosta 140 milljarða króna og á að skapa á bilinu þrjú til fimm hundruð störf.

 Fagnaðarefni fyrir sveitarfélagið

Kristján Þór Magnússon sagði í skriflegu svari til blaðsins að hann væri mjög ánægður með þessa framvindu í verkefninu. „Við munum að sjálfsögðu halda áfram samtali og samstarfi okkar við Carbon Iceland á þeim forsendum sem verið hefur. Við erum mjög spennt fyrir því að sjá næstu skref tekin í átt að uppbyggingu lofthreinsivers á Bakka og vonum að áætlanir fyrirtækisins leiði til þess að formlega verði sótt um iðnaðarlóðir því til handa á næstu misserum,“ segir hann.

Nýjast