Af hverju er bannað að hjóla í gegnum Vaðlaheiðargöng?
Vaðlaheiðargöng eru 7500metra löng, vegbreidd er 7metrar. Umferðarhraði er 70km/klst.
Vaðlaheiðargöng eru einum metra víðari en önnur tvíbreið göng á Íslandi.
Leyfilegt er að fara um göngin á opnum farartækjum, eins og vélhjólum og vespum.
Ekki má hjóla í gegnum göngin.
Flest göng á Íslandi eru eins að því leiti að hámarkshraði í þeim er 70km/klst. og ekki má fara gangandi eða ríðandi í gegnum göngin.
Hér eru nokkur dæmi um lengd vegganga á Íslandi:
Norðfjarðargöng eru 7900metra löng og tvíbreið, vegbreidd er 6metrar
Bolungarvíkurgöng eru 5400m löng og tvíbreið, vegbreidd er 6metrar
Fáskrúðsfjarðargöng er 5900m löng og tvíbreið, vegbreidd er 6metrar
Múlagöng er 3100m og einbreið. Vegbreidd er minni en 4metrar
Siglufjarðargöng eru 7100+3900m og tvíbreið, vegbreidd er 6metrar
Það má hjóla í gegnum öll göng á Íslandi nema Vaðlaheiðargöng og Hvalfjarðargöng
Hver eru rökin fyrir að bannað sé að hjóla gegnum Vaðlaheiðargöng?
Ekki umferðarhraði. Hann er sá sami og í öðrum göngum.
Ekki vegalengd, Norðfjarðargöng og Héðinsfjarðargöng samanlögð, eru lengri.
Ekki vegbreidd. Vaðlaheiðargöng eru breiðustu göng á Íslandi fyrir utan þrefalda hluta Hvalfjarðarganga.
Ekki umferðarmagn, því það má hjóla á flestum vegum á Íslandi óháð umferðarmagni. Samt er oftast 90km/klst. hámarkshraði á þjóðveginum
Ekki er það vegna þess að þeir eru hræddir við að geta ekki rukkað, því mótorhjól eru gjaldfrjáls og reiðhjól væru það þá væntanlega líka.
Ekki af því þeir eru hræddir við mengun, þá þyrfti aukasúrefni inn í neyðarrýmin ef hættulegt væri að dvelja lengi inn í göngunum. Enda eru göngin hönnuð til að hreinsa sig af CO2. (halla niður að báðum gangamunnum)
Af hverju er bannað að hjóla Hvalfjarðargöng? Kanske veghalli og CO2 er þyngra en andrúmsloft og göngin eru lægst í miðjunni og þar gæti mengun farið yfir óæskileg gildi. Einnig eru brattar brekkur beggja vegna upp úr göngunum og því erfiðara og tímafrekara að hjóla upp brekkurnar..
Mikil vakning er í hjólreiðum landsmanna. Hér á Akureyri er gífurlegur fjöldi fólks sem hjólar sér til ánægju og heilsubótar. Aðstaðan hefur stórbatnað undanfarin ár og fer enn batnandi.
Að hjóla austur yfir Vaðlaheiði er erfitt, því annað hvort þarf að fara yfir Víkurskarðið eða gamla veginn yfir Steinsskarð. Með tilkomu gangana varð samgangur beggja vegna Vaðlaheiðar enn meiri en hann var. Margir sækja vinnu yfir heiðina. Mjög margir sumarbústaðir og hjólhýsasvæði eru í Fnjóskárdal og ég er viss um að ef hjóla mætti gegnum göngin myndu hjólreiðar aukast mikið austur yfir heiði.
Finnst eftir að hafa farið í gegnum þetta að einu rökin fyrir að banna hjólreiðar gegnum göngin séu : Af því bara !!
Oddur Helgi Halldórsson
Höfundur er áhugamaður um hjólreiðar og útivist.
( og barðist mjög fyrir gerð Vaðlaheiðarganga, sem bæjarfulltrúi á Akureyri )