Af fráveitusölu
Uppi hafa verið hugmyndir af hálfu L-listans um að selja fráveitu bæjarins til Norðurorku. Ljóst er að megin tilgangur sölunnar er sá að bæta afkomu A-hluta sveitarsjóðs, en eins og fram hefur komið þá hefur A-hlutinn verið rekinn með tæplega fimmtánhundruð milljóna króna tapi á s.l. tveimur árum (bara árétta fyrir lesanda að talan fimmtánhundruð milljónir er ekki prentvilla) og margt bendir til þess að rekstur hans verði undir áætlun á þessu ári. Engin launung er á því að sala fráveitu er til þess að gera rauðar tölur svartar eins og fram kom í samtali við forsvarsmann L-listans Odd Helga Halldórsson nýverið.
Dýru verði keypt
En hvað þýðir slík sala fyrir sveitarfélagið í heild sinni? Jú í fyrsta lagi þá skapast söluhagnaður á þessu ári sem gerir eins og áður segir rauðar tölur svartar hjá A-hluta sveitarsjóðs. Á komandi árum myndi svo Norðurorka greiða til bæjarins vexti af söluandvirði og arð af hagnaði fráveitunnar. Allt myndi þetta bæta afkomu A-hlutans en hins vegar fylgir böggull skammrifi. Allar vaxta- og arðgreiðslur frá Norðurorku hf. til baka inní A-hluta sveitarsjóðs kalla á skattgreiðslur til ríkisins í formi fjármagnstekjuskatts auk þess sem fyrir liggur álit ríkisskattstjóra þess efnis að rekstur fráveitu sé tekjuskattskyldur verði hann færður yfir til Norðurorku. Niðurstaða mín er því sú að til þess að bæta stöðu A-hlutans þarf sveitarfélagið að greiða ríkinu fjármagnstekjuskatt og Norðurorka eftir atvikum tekjuskatt sem þýðir að heildarafkoma sveitarfélagsins verður lakari en fyrir sölu. Gæti þetta tap sveitarfélagsins vegna skattgreiðslna numið tugum milljóna króna árlega. Slíkar greiðslur þyrfti ekki að greiða miðað við óbreytt rekstrarform og salan því dýru verði keypt. Því þarf að mínu mati mun sterkari rök fyrir sölu önnur en þau að bjarga rekstri yfirstandandi árs hjá A-hluta.
Horfumst í augu við staðreyndir
Allt frá því ég tók sæti í bæjarstjórn hef ég bent á að rekstur A-hlutans sé afar viðkvæmur og mikilvægt sé að forgangsraða og bæta afkomu hans. Einsdæmi er að rekstur A-hluta hjá Akureyrarbæ sé neikvæður tvö ár í röð og nú rær meirihlutinn lífróður til þess að koma í veg fyrir taprekstur þriðja ársins. Því miður hefur L-listinn svolítið treyst á Guð og lukkuna í rekstrinum, engar stefnubreytingar hafa verið gerðar á kjörtímabilinu þrátt fyrir hreinan meirihluta listans og nú eru menn komnir upp að vegg. Mikilvægt er að horfast í augu við þá staðreynd að tekjur A-hluta standa ekki undir þeirri þjónustu sem við erum að veita, tökum sameiginlega á því en reynum ekki að redda málum með ákvörðunum teknum í flýti.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson
bæjarfulltrúi Framsóknarflokks