20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Ævintýragarðurinn dregur að sér innlendra og erlendra ferðalanga
„Sumarið hefur gengið vel og það er mikil aukning gesta miðað við síðasta sumar,“ segir Hreinn Halldórsson sem býður gestum að líta á ævintýrastyttur sína í garði við hús sitt í Oddeyrargötu á Akureyri. Nú fer hver að verða síðastur, það styttist í lokun en hann segir það þó fara eftir veðri og vindum. Síðastliðið haust var lokað 10. september, „en trúlega verður opið fram að miðjum þessum mánuði.“
Hreinn segir að tilvist garðsins og verkin sem þar eru sem og að hann sé opin almenningi hafi spurst út. „Það er töluvert um að erlendir hópar á hringferð um landið komi við í garðinum en auk þess hef ég fengið marga Íslendinga í heimsókn sem sumir hverjir hafa skilið eftir „skreytiefni“ á styttur. Ég gæti trúað að helmingur gesta í sumar sé Íslendingar svo það eru ekki bara útlendingar sem finnst heimsókn í garðinn þess virði.“
Í „dúkkuleik“ í vetur
Undanfarið segir Hreinn að hann hafi verið að skapa litlar og nettar konur í þjóðbúning sem hann kalli innistyttur en á þannig styttur er hægt að nota fjölbreyttara skreytiefni en á þær styttur sem standa úti í öllum veðrum og verða að þola rigningu, snjókomu og frost.
„Í vetur mun ég svo fara í „dúkkuleik“ en það kalla ég það þegar ég tek eldra verk og endurmála og skreyti með nýju skrauti. Það er því margt sem bíður mín í vetur. Næsta sumar fara því sum verkin út í nýjum fötum og trúlega bætast einhver verk við. Ævintýrin gerast því enn í Ævintýragarðinum,“ segir Hreinn.