Kosningaspjallið: Ætla að stórauka stuðning fyrir barnafjölskyldur

Logi Már Einarsson.
Logi Már Einarsson.

Vikublaðið heldur áfram oddvitaspjallinu fyrir komandi alþingiskosningar í haust. Nú er komið að Samfylkingunni en það er Logi Már Einarsson, formaður flokksins, sem leiðir lista flokksins í NA-kjördæmi.

Logi er giftur Arnbjörgu Sigurðardóttur héraðsdómara. Þau eiga tvö börn, Úlf sem er myndlistarnemi í Þýskalandi, og Hrefnu sem er á tónlistarbraut í MA. Vegna starfs síns er Logi mikið í Reykjavík en þær mæðgur eru fyrir norðan. „Það hefur þó aldrei komið til tals að við flyttum suður. Hér líður okkur best auk þess sem mér finnst skipta máli að við  greiðum útsvar til bæjarfélagsins sem hefur fóstrað okkur hjónin og börnin okkar,“ segir Logi Már.

Hvar ertu fæddur og uppalinn?

„Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri; naut þess að alast upp í rólegum bæ þar sem var allt til alls. Sprangaði um í Gefjunar úlpu og Iðunnarskóm og keypti mér Jolly og Lindubuff í Amaro sjoppunni þegar mér áskotnaðist aur. Athafnasvæðin voru fjölbreytt; Miðhúsaklappirnar, gömlu úreldu síðutogararnir á Hoepnersbryggju  og fjölmargir grænir blettir sem hægt var að spila fótbolta á. Á unglingsárunum voruð það Dynheimar og svo einn daginn opnuðust manni dyrnar á Sjallanum og þá var maður allt í einu orðin fullorðinn. Þetta var lítill og rólegur bær, nokkuð ólíkur þeim margbreytilega stað sem Akureyri er í dag; iðandi af alls konar lífi með ótal valkosti og tækifæri. Mér hefur þótt gaman að fylgjast með þessum breytingum  og hlakka til að verja  ellinni hér. Akureyri á þó mikið inni en það þarf að grípa til kraftmikilla aðgerða til að efla hana. Ég er sannfærður um vaxandi styrkur hennar er lykill að sterkari stöðu allrar landsbyggðarinnar.“

Hver eru þín helstu áhugamál?

„Ég er alinn upp af tveimur íþróttakennurum og uppeldið snérist talsvert um íþróttir. Ég hef enn mikinn áhuga á þeim. Ég fæddist á Suðurbrekkunni og varð þannig nokkuð sjálfkrafa KA maður. Ég spilaði mikið fótbolta og handbolta og reyndar bæði með KA og Þór. Ég hef því miklar tilfinningar til beggja félaganna þótt ég haldi vissulega með KA í innbyrðis leikjum þeirra. Pabbi var líka myndlistarmaður og ég smitaðist af því áhugamáli og er í dag heltekinn myndlistaráhugamaður. Ég hef reyndar mikinn áhuga á listum almennt og tónlist er ríkur partur af lífi mínu eins og margra. Ég er á því að fjörugt menningarlíf sé einn af stóru kostum bæjarins og frekari styrking þess sé lykillinn að því að laða hingað gesti og nýja íbúa sem ýti undir vöxt staðarins. Vegna menntunar minnar sem arkitekts hef ég jafnframt mikin áhuga á skipulags- og byggingarmálum og er sannfærður um að sá áhugi hefur smitast inn í stefnu Samfylkingarinnar í byggðamálum.“

Af hverju ætti fólk að kjósa Samfylkinguna?

„Samfylkingin hefur eitt meginmarkmið; betra líf fyrir þig, þína fjölskyldu og komandi kynslóðir. Allt starf Samfylkingarinnar byggist á jafnaðarstefnunni þar sem jöfnuður, frelsi og mannréttindi eru grundvallarmál og fjölbreytni mannlífsins fagnað. Við viljum leiða saman aðra ríkisstjórn sem nógu samstíga og skapandi til að takast á við stóru verkefnin framundan í efnahagslífinu, loftslagsmálum og velferðarmálum. Ríkisstjórn sem ætlar að byggja upp í stað þess að skera niður og er óhrædd við markvissari beitingu hins opinbera, sem skilur að til að bæta þjónustu við fólkið í landinu verði að stórauka samvinnu ríkis og sveitarfélaga.“

Hverjar eru ykkar áherslur?

„Samfylkingin ætlar stórauka stuðning fyrir barnafjölskyldur, ráðast í uppbyggingu á húsnæðismarkaði og bæta kjör eldra fólks og öryrkja. Við ætlum að hefja kraftmikla sókn í loftslagsmálum sem jafnast á við stærstu samfélagsverkefni 20. aldar: raflýsingu og hitaveitu, lagningu síma og þjóðvega. Við ætlum að byggja upp fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, menntakerfi sem tryggir öllum jöfn tækifæri og móta nýja atvinnustefnu um hugvit, nýsköpun og sjálfbær umskipti. Við höfnum alfarið áformum ríkisstjórnarinnar um 100 milljarða niðurskurð sem mun koma niður á innviðum og þjónustu við almenning, viljum hámarka arð þjóðarinnar af fiskveiðiauðlindinni, ráðast gegn spillingu og færa aukin völd til almennings.“

Hvaða tækifæri sérð þú í að efla atvinnulíf á Norðurlandi eystra?
„Atvinnulíf mun blómstra þar sem fólk vill búa. Góð almannaþjónusta er forsenda þess að atvinnulíf í landshlutanum blómstri til framtíðar. Við viljum tryggja greiðar samgöngur, öfluga heilbrigðis- og velferðarþjónustu, kraftmikla umgjörð menntunar, tómstunda, menningar og lífsgæða. Við þurfum að nýta enn betur tækifærin í ferðaþjónustu; ráðast í uppbyggingu millilandaflugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum, byggja upp og hlúa að ferðamannastöðum og leggja sérstaka áherslu á öfluga markaðssetningu. Ýmis tækifæri felast auk þess í grænni uppbyggingu m.a. með uppbyggingu líforkuvers sem skapar verðmæti úr lífrænum úrgangi og nýtingu jarðvarma. Þá felast tækifæri í uppbyggingu nýsköpunarklasa í öllum helstu þéttbýliskjörnum þar sem frumkvöðlar, fyrirtæki og stofnanir fá aðstöðu og stuðning.“

Hvernig má hlúa betur að brothættum byggðum á svæðinu?

„Besta byggðaaðgerðin er að tryggja góða almannaþjónustu, blómlega verslun og fjörugt lista- og íþróttalíf. Brothættar byggðir sem búa við viðvarandi fólksfækkun, skakka aldursdreifingu, áföll í atvinnulífi og veika þjónustu þurfa á stuðningi að halda. Sá stuðningur þarf að vera falinn í því að virkja samtakamátt og frumkvæði heimafólks og stilla saman strengi ríkis, sveitarfélaga, opinberra stofnana, atvinnulífs í öllu því er viðkemur framtíð svæðisins. Með því að nýta þau tækifæri sem felast í fjölgun starfa án staðsetningar geta stjórnvöld einnig bætt lífskjör og um leið eflt brothættar byggðir um land allt, en verður að tryggja öllum aðgang að áreiðanlegu ljósleiðaraneti.

Hvar liggja helst sóknarfæri hér í landshlutanum að þínu mati?

„Landshlutinn býr yfir stórfenglegri náttúru, auðlindum og metnaðarfullu fólki. Þar liggja sóknarfærin. Til að nýta fjölbreytt tækifæri til verðmætasköpunar verðum við að hlúa betur að landshlutanum með því að efla almannaþjónustu, samgöngur og aðra innviði á svæðinu. Framfarir í atvinnulífinu, ekki síst tengt tækninýjungum, gerir það að verkum að störf framtíðarinnar verða mörg hver gerólík því sem við þekkjum í dag. Störfin munu í sífellt auknum mæli elta fólkið, fremur en fólkið störfin. Þar liggja tækifæri fyrir landshlutann. Sóknarfæri landshlutans eru vel skilgreind í Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Við ætlum að fjármagna betur sóknaráætlanir, fremur en að draga úr fjármögnun þeirra líkt og núverandi ríkisstjórn hefur gert.“

Nýjast