Æfingar hafnar hjá LA á Gullna hliðinu

Leikhópurinn fór í Laufás í til að anda að sér torfbænum. Myndirnar tók Bjarni Eiríksson.
Leikhópurinn fór í Laufás í til að anda að sér torfbænum. Myndirnar tók Bjarni Eiríksson.

Egill Heiðar Anton Pálsson leikstýrir verkinu en það er nú sett upp í fjórða sinn hjá Leikfélagi Akureyrar. Sýningin er hátíðarsýning félagsins á 40 ára atvinnuafmæli þess.

Verkið fjallar um uppgjör kerlingar við líf sitt og Jón mann sinn. Ferðalag hennar til hins gullna hliðs með sálartetur bónda síns í skjóðu er löngu orðið þekkt í íslenskum leikbókmenntum og leitast uppfærslan við að vera trú þessari reisu og varpa ljósi á hvaðan við komum.

Hljómsveitin Eva með þær Sigríði Eir Zophoníasardóttur og Jóhönnu Völu Höskuldsdóttur innanborðs semja nýja tónlist við verkið og taka þátt í uppfærslunni með lifandi tónlistarflutningi.

Með hlutverk kerlingarinnar fer María Pálsdóttir sem eftir nokkuð hlé stígur aftur á fjalirnar hjá LA. Auk hennar leika Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, Hilmir Jensson og fjórtan nemendur úr Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar í sýningunni. 

Egill Ingibergsson hannar leikmynd og lýsingu, Helga Oddsdóttir hannar búninga, Ingibjörg Huld Haraldsdóttir er aðstoðarleikstjóri og Gígja Hólmgeirsdóttir aðstoðarkona er í starfsnámi hjá LA.

Frumsýning er 17. janúar. 

 

Nýjast