Æ fleiri óska eftir aðstoð við að afla sér matar
„Ástandið fór að versna í mars og hefur eiginlega snarversnað síðan. Það er greinilegt að margir hafa það verulega slæmt í okkar samfélagi,“ segja þær Sigrún Steinarsdóttir og Sunna Ósk Jakobsdóttir sem halda úti síðunni Matargjafir á Akureyri og nágrenn á facebook. Í marsmánuði síðastliðnum óskuðu um 120 manns eftir aðstoð frá þeim Sigrúnu og Sunnu og höfðu þá aldrei verið fleiri í einum mánuði. Nú í sumar leita að jafnaði um 250 manns á Akureyri og nágrenni eftir aðstoð til að hafa í sig og á.
Á síðunni birtast af og til bréf frá fólki sem lýsir neyð sinni, algengt er að það séu nokkrir hundraðkallar inn á reikningum, bíllinn bensínlaus og ekki til peningur til að leysa út nauðsynleg lyf.
„Það er greinilegt að það er mjög hart á dalnum hjá ákveðnum hópum í okkar samfélagi, staðan er í raun bara skelfileg,“ segja þær Sigrún og Sunna. „Það hefur orðið gríðarleg aukning hjá okkur. Við sjáum engin batamerki, það má búast við að ástandið verði með þessum hætti áfram, því miður.“
Kórónuveira hefur víða sett strik í reikninginn, margir misst vinnu eða eru í hlutastarfi,
örorkubætur fylgja ekki verðlagi og miklar hækkanir hafa orðið í matvöruverslunum. Sumarlokun Mæðrastyrksnefndar sem einnig leggur fólki í ney lið hefur sitt að segja um vaxandi fjölda. Meira í prentútgafu Vikublaðsins.