Að eldast vel

Vilborg Gunnarsdóttir skrifar
Vilborg Gunnarsdóttir skrifar

Rúmlega miðaldra kona hefur nú lagt skóna á hilluna. Kannski ekki alveg í “venjulegri” merkingu þess orðs þar sem hún hefur aldrei átt alvöru íþróttaskó, heldur hefur hún látið af launuðum störfum.

Þetta er stór áfangi, sérstaklega þar sem ég hef enn ekki náð þessum löglega aldri. En ég íhugaði þetta vel og niðurstaðan varð þessi.

Það sem komið hefur mest á óvart er hversu margir eru hissa á þessari ákvörðun því flestir sem ég hitti, kvíða þessum áfanga og vilja draga hann sem mest og eins lengi og hægt er. Og þar sem ég er víðsýn kona sýni ég því skilning að við séum ekki öll steypt í sama mót.

Margir mér ósammála

Lengi vel starfaði ég meðal annars við það að kenna fólki að hætta að vinna. Námskeiðin buðust þeim starfsmönnum sem náð höfðu 60 ára aldri og satt best að segja, tóku ekki allir því vel að fá slíkt boð. Ég fékk meðal annars spurningar um hvort nú ætti að segja þeim upp. Á námskeiðinu var farið yfir helstu réttindi, fjármál, mikilvægi þess að viðhalda góðri heilsu og loks var bent á ýmislegt sem gaman væri að taka sér fyrir hendur. Eitt af því sem kynnt var, voru mismunandi sjálfboðaliðastörf. Á Íslandi eru starfandi fjölmargir sjálfboðaliðar en sennilega eru flestir tengdir björgunarsveitum og íþróttafélögum. Rauði krossinn hefur líka þegið framlag sjálfboðaliða í ýmis fjölbreytt störf.

Nú veit ég að margir eru mér ósammala um að sniðugt sé að hætta að vinna fyrr en þarf og virði ég það. Og hvenær sem að því kemur að stóri dagurinn rennur upp, er afar mikilvægt að vera vel undir hann búinn. Gott er að sjá fyrir sér hvernig verja skal deginum og helst að koma sér í „rútínu“. Þá er líka mikilvægt að sleppa ekki helgunum, það er að gera sér dagamun svo allir dagar verði ekki eins.

Þökkum fyrir að fá að eldast

Þegar Alzheimersamtökin opnuðu nýtt úrræði fyrir yngri og nýgreinda einstaklinga með heilabilun var lögð áhersla á að þeir sem þar nytu þjónustu fengju einstaklingsmiðaðar áætlanir sem miðuðu að því að viðhalda sem mestri virkni. Nýjar rannsóknir hafa sýnt fram á að ef menn stunda frekar ákafa líkamsrækt að minnst kosti þrisvar í viku, borða hreint fæði, taki þátt í félagsstarfi og virki heilann reglulega, geti hægt á framgangi sjúkdómsins um þriðjung. Það er ekki lítið. Og ef við færum þessi heilræði þeim sem „bara“ eru að eldast ættu áhrifin að vera ekki minni, sem er að hægja á einkennum öldrunar.

Ég lít svo á að við eigum að þakka fyrir að fá að verða eldri og vera enn þakklátari ef heilsan helst góð.

Miklar líkur eru á því að mörg okkar sem nú erum rúmlega miðaldra náum tíræðisaldri. Það þýðir að við þurfum að hafa koll og skrokk í lagi næstu 30 árin í það minnsta. Ærið verkefni framundan þar.

Höfundur er áhugamaður um almenna velferð.

Nýjast