Velferðarráð horfir til nokkurra svæði undir hús fyrir heimilislausa
Velferðarráð Akureyrarbæjar hefur falið skipulagssviði að skipuleggja fimm lóðir eða reiti sem koma til greina fyrir íbúðir fyrir heimilislaust fólk með fjölþættan vanda. Málið var rætt á fundi ráðsins nýverið þar sem lagt var fram minnisblað um stöðu málaflokksins.
Hulda Elma Eysteinsdóttir formaður Velferðarráðs segir að biðlistinn sé ekki langur einmitt nú en það geti tekið snöggum breytingum. Því verði þó ekki á móti mælt að málaflokkurinn sé þungur og erfiður viðureignar.
Horfa til nokkurra framtíðarsvæða
„Við teljum mikilvægt að horfa fram í tímann og vera með fullklárað og fjölbreytt lóðaframboð hverju sinni fyrir húsnæði af þessu tagi,“ segir hún. Horft er til fimm svæða undir húsin. Eitt er við Síðubraut, annað við Hlíðarfjallsveg, þá er svæði við Baldursnes inni í myndinni sem og reitur við Miðhúsabraut auk þess sem svæði við Ytra-Krossanes gæti komið til greina þegar byggt yrði á því svæði.
Hulda Elma Eysteinsdóttir
Hulda Elma segir að málið verði unnið áfram, m.a. á vegum umhverfis- og mannvirkjasviðs, en sérstaklega er óskað eftir að horft verði til þeirrar vinnu sem fram hefur farið hjá Reykjavíkurborg varðandi hagkvæmt húsnæði. „Við verðum að horfa vel fram í tímann í þessum efnum,“ segir hún og telur að horfa verði til þessarar framtíðarsýnar í málefnum fólks með fjölþættan vanda við gerð næstu fjárhagsáætlunar.
Þrjú til fimm hús á hverjum reit
Um það bil þrjú til fimm hús verða á hverjum reit, en Hulda Elma segir að best fari á því að hafa ekki of mörg hús af þessu tagi á sama svæði. Akureyrarbær hefur þegar 17 ibúðir fyrir fólk með fjölþættan fíkni- og geðvanda og stendur til á næstunni að stokka aðeins upp í kerfinu á þann veg að ekki verði of margir á sama svæði.
Hún segir Akureyrarbæ vinna eftir stefnu sem nefnist Húsnæði fyrst og felur í sér að sveitarfélagið bjóði þessum hópi upp á öruggt og varanlegt húsnæði án skilyrða. „Við erum að vinna eftir þessari stefnu og sjáum fyrir okkur að á næstu árum rísi nokkur slík hús hér og hvar í bænum. Gistiskýli eru talinn lakasti kosturinn og við teljum að ekki sé þörf á slíku úrræði á Akureyri enn sem komið er"