20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Áætlanir gera ráð fyrir að fyrstu stúdentar flyti inn fyrir skólaárið 2026
Arkitektastofan Nordic Office of Architecture hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um hönnun á nýjum stúdentagörðum fyrir Félagsstofnun stúdenta við Háskólann á Akureyri. Stofnunin í samstarfi við við Arkitektafélag Íslands efndi til samkeppni um hönnun stúdentagarðanna sem verða á svæði í námunda við Háskólann, við Dalsbraut. Alls bárust ellefu tillögur í keppnina. Í öðru sæti var tillaga HJARK+Sastudio og í þriðja sæti var tillaga Kollgátu og KRADS.
Jóhannes Baldur Guðmundsson framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta við Háskólann á Akureyri, FÉSTA kveðst mjög ánægður með vinningstillöguna, hún sé framsækin og afar faglega hönnuð með framúrskarandi og vistvænar lausnir og vel hugað að sameiginlegum rýmum stúdenta.
Búsetuþarfir stúdenta hafa breyst
Búsetuþarfir stúdenta við HA hafa breyst á síðustu árum en framboð húsnæðis hjá FÉSTA ekki náð að fylgja eftir þeirri þróun. Eftirspurnin hefur mest verið eftir minni íbúðum s.s. stúdíó íbúðum, 2ja herbergja íbúðum og einstaklingsherbergjum. Á grundvelli könnunar og greiningarvinnu var niðurstaðan sú að þörf væri á auknu framboði á minna húsnæði og húsnæði sem uppfyllti nútíma kröfur. Meginmarkmið samkeppninnar er að fá tillögu sem gerir FÉSTA kleift að byggja bjartar og aðlaðandi íbúðir í góðu samræmi við húsnæðisþarfir nemenda HA.
Stúdentagarðarnir verða í þremur húsum og þar verða alls 64 einstaklingsherbergi, 21 stúdíóíbúð og 40 2ja herbergja íbúðir. Fyrir á stofnunin eignir á nokkrum stöðum, við Drekagil 21, Tröllagil 29, við Klettastíg 2, 4, og 6, við Kjalarsíðu 1a og 1b og Útstein við Skarðshlíð 46 en það er fyrsta bygging stofnunarinnar, tekið í notkun árið 1989. Húsin við Kjalarsíðu eru þau síðustu í röðinni og voru tekin í notkun árið 2008, en síðan hafa ekki verið byggðar stúdentaíbúðir á Akureyri. Alls á stofnunin 74 3ja herberga íbúðir, 56 2ja herberga og 34 einstaklingsherbergi, ásamt því að eiga húsnæðið sem leikskólinn Tröllaborgir er í.
Skoða mögulega sölu á eignum
„Áætlanir okkar miða að því að fyrstu stúdentarnir geti flutt inn í nýja námsgarða fyrir skólaárið 2026-27, en þó gætu ýmis mál haft áhrif á þá áætlun, svo sem áframhaldandi hátt vaxtastig lána og verðbólga. Í tengslum við uppbyggingu nýrra námsgarða er verið að endurskoða og meta aðrar eignir okkar með mögulega sölu í huga til að aðlaga eignasafn okkar að eftirspurn síðustu ára og áætlaða þróun,“ segir Jóhannes.
Jóhannes Baldur Guðmundsson framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta við Háskólann á Akureyri