Á hæstri hátíð nú – hátíðartónleikar í Akureyrarkirkju

Það stendur heilmikið til í Akureyrarkirkju  á morgun 28 des kl 20.00 þegar  þær  vinkonurnar Snæbjörg Gunnarsdóttir sópran, María Sól Ingólfsdóttir sem einnig er sópran og Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanóleikari  bjóða til söngskemmtunnar sem þær kalla Á hæstri hátíð nú – hátíðartónleikar  í Akureyrarkirkju  

Vikublaðinu lék forvitni á að vita hvað stæði til og settum við okkur í samband við Maríu Sól sem m.a fékk Grímuna  sem besti söngvari árisns 2021  fyrir söng  í óper­unni Ekk­ert er sorg­legra en mann­eskj­an og inntum hana eftir þvi hvað stæði fyrir dyrum.

Hvað ætlið þið á bjóða áheyrendum upp á María Sól?  ,,Það verður algjör veisla og ekkert nema okkar uppáhaldstónlist. Efnisskráin  er fjölbreytt og spennandi. Íslensk lög, píanóverk, ástríðufull norræn sönglög. Einnig söngleikjalög og sjaldheyrðir dúettar og dramatískar aríur úr óperum og óperettum“.

 Tilhlökkun hjá ykkur?  Ég hlakka svakalega mikið til að syngja í Akureyrarkirkju því ég veit hún er afar falleg og hljómmikil. Ég söng þar fyrir löngu þegar ég var í Barna- og kammerkór Biskupstungna. Þar sungum við með barnakór frá Akureyri og þetta var mjög skemmtileg reynsla og góð minning“. 

,,Við höfum allar lært tónlist hér heima og úti í Þýskalandi og Sviss. Þóra Kristín píanóleikari er Akureyringur, en við hinar frá Suðurlandi; Snæbjörg ólst upp á Kambi í Rangárvallasýslu og ég á Engi í Biskupstungum. Við höfum allar tengingar við Akureyri og Norðurland í gegnum fjölskyldu og vini“. 

 Þið lofið góðri skemmtun?  ,,Já,  og við hlökkum mikið til tónleikanna eins og áður sagði, vonumst til að sjá sem flesta og kveðja árið saman á háum nótum ef svo má segja“ sagði María Sól. 

 Miðasala er við innganginn og tónleikarnir hefjast eins og fyrr sagði kl 20.00. á morgun 28 des.

Nýjast