Á götuhorninu - Kennari á eftirlaunum skrifar

Kennari skrifar frá götuhorninu                             Mynd Vikublaðið
Kennari skrifar frá götuhorninu Mynd Vikublaðið

 Það hefur verið sérstakt að fylgjast með barnabörnunum æfa heimalestur undanfarin ár.  Fyrst vissi ég ekkert hvað var að gerast. Börnin sátu inn í herbergjunum sínum og romsuðu út úr sér einhverjum orðaflaumi í belg og biðu.  Þau voru að æfa sig í lestri og reyna að hanga í einhverjum hraðaviðmiðum sem allt snerist um í skólanum.  Ég skildi ekkert hvað þau voru að lesa og nú hefur PISA könnun leitt í ljós að þau skildu ekkert sjálf.  Það var heldur ekkert ætlast til þess af hálfu skólans.

PISA könnunin er alþjóðlegur mælikvarði. Ekki fullkominn frekar en aðrir mælikvarðar en gefur þó vísbendingar.  Í okkar tilviki um að íslenskt grunnskólakerfi er komið í alvarlegar ógöngur og of stór hluti barna kemur úr því verkfæralaus út í framtíðina. Þessu eru reyndar ekki allir sammála og benda á að börnin bjargir sér ekki síður en áður í framhaldsskólum og háskólum landsins. Ég er bara gömul kona en ég á erfitt með að skilja hvernig einstaklingur sem skilur ekki það sem hann eða hún er að lesa getur skilað sér farsællega upp úr framhaldsskóla og síðan háskóla.  Er eitthvað að marka skírteini um háskólapróf einstaklings sem skilur ekki það sem hann er að lesa?  Eru kannski skúffur landsmanna fullar af skírteinum um háskólapróf án þess að nokkur innistæða sé fyrir þekkingunni sem á að vera á bakvið þau?

 Ég vil ekki vera gömul og nöldursöm kerling án þess að koma með einhverjar lausnir. Ég sé að börnin mín vinna myrkranna á milli til að geta komið upp og haldið þaki yfir höfuðið og séð sér og barnabörnunum fyrir nauðsynjum. Allir tala um að húsnæði sé dýrt og vextir háir.  Þetta eru samt smámuni miðað við þau útgjöld sem eru mest íþyngjandi.  Staðreyndin er sú að afrakstur 5 tíma af vinnudegi fólksins fer beint eða óbeint í skatta. Það er stærsta byrðin. Og það er ekki eins og þessu skattfé sé vel varið eða að hærri skattur tryggi t.a.m. betri árangur skólakerfisins. Þvert á móti.  Og foreldrarnir eru svo örmagna eftir langa vinnudaga að þeir hafa ekki tíma eða orku til að tala við börnin eða verja með þeim tíma, leiðbeina þeim og auka málsskilning þeirra.  Þetta mætti laga með því að draga úr skattlagningu og minnka umsvif hins opinbera. Með því yrðu meiri fjármunir eftir hjá þeim sem vinna fyrir þeim og svigrúm þeirra mundi aukast. Þá mundi líka draga úr verðbólgu og vaxtastigið mundi lækka. Lausnin blasir við.  Hún er einföld og leysir mörg vandamál á sama tíma.

Nýjast