Á annan tug einstaklinga heimilislausir eða í ótryggu húsnæði

Tvö ný smáhýsi fyrir fólk með fjölþættan vanda voru afhent sveitarfélaginu fimmtudaginn 30. nóvember…
Tvö ný smáhýsi fyrir fólk með fjölþættan vanda voru afhent sveitarfélaginu fimmtudaginn 30. nóvember. Fyrir voru tvö smáhýsi á lóðinni við Dvergholt 2 en þau hafa verið í notkun síðan 2020.Húsin eru byggð af SS Byggi eins og fyrri húsin tvö og stóð til að afhenda þau í lok febrúar 2024 en verkinu var lokið fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir og því voru þau afhent núna, þremur mánuðum á undan áætlun.Smáhýsin tvö eru vönduð tveggja herbergja hús, 55 m² að stærð, byggð úr krosslímdum timbureiningum og klædd að utan með álklæðningum. Við öll húsin er steypt verönd. Mynd akureyri.is

Á annan tug einstaklinga eru heimilislausir eða búa í ótryggu húsnæði á Akureyri. Mikilvægt er að bregðast við þeirri stöðu að mati bæjarráðs en það var áður til umræðuá fundi velferðarráðs. Sviðsstjóra velferðarsviðs hefur verið falið að leggja fram mögulegar tillögur til úrbóta og kostnað við þær fyrir 1. maí 2024.

Hulda Elma Eysteinsdóttir formaður velferðarráðs segir að staða í málefnum fólks með fjölþættan vanda sé erfið um þessar mundir. Margir séu á biðlista eftir húsnæði. Akureyrarbær er með 15 íbúðir í notkun fyrir fólk með fíkni- og fjölþættan vanda. Margir sem í þeim búa eigi við erfiðan vímuefnavanda að stríða. Umgengni er oft og tíðum slæm og nokkrar skemmdir hafa orðið á húsnæði af þeim völdum. „Það er ljóst  að þessi mikla neysla er eitthvað sem ekki verður snúið við með einföldum hætti og nauðsynlegt að huga að nýjum leiðum til að bregðast við.“ 

Tvö smáhýsi voru tekin í notkun fyrir fáum misserum og önnur tvö hafa verið afhent. „Við erum þegar farin að skoða staðsetningu fyrir fleiri hús og gerum ráð fyrir að þau verði fjögur talsins.“

Skoða möguleika til að bregðast við

Hulda Elma segir að nú sé að hefjast vinna þar sem allir möguleikar sem fyrir hendi eru verða skoðaðir til að bæta megi úr þeirri stöðu sem uppi er um þessar mundir. „Það verður eitthvað gert í náinni framtíð til að bæta ástandið, sem aldrei áður hefur verið svo slæmt.“

Hulda Elma segir að tala heimilislausra eða þeirra sem búi í ótryggu húsnæði geti þó breyst hratt. Einstaklingar innan hópsins flytji sig á milli landshluta, þeir fari í meðferð eða til afplánunar sem dæmi séu nefnd. „Þetta er ný staða hjá okkur á Akureyri, við höfum aldrei séð svona stóran hóp án húsnæðis áður,“ bætir hún við.

Félagsráðgjafar séu í  tengslum  við  þann  hóp  sem  er  á  götunni  eða  búa  inn  á  vinum  eða ættingjum. „Staða þeirra er slæm, þau fara á  milli húsa og eru oft óvelkomin þar sem þau eru.“

 

Nýjast