Á annað hundrað snjóstanga brotnar af götuskápum

Til vinstri má sjá götuskáp með snjóstöngina í lagi en til hægri má sjá tjónaðan götuskáp eftir að e…
Til vinstri má sjá götuskáp með snjóstöngina í lagi en til hægri má sjá tjónaðan götuskáp eftir að ekið var á hann. mynd/ Norðurorka

Á vef Norðurorku er biðlað til íbúa Akureyrar að aðstoða við að koma í veg fyrir tjón á götuskápum.

Götuskápar eru mikilvægur hluti af dreifikerfi rafmagns. Þeir eru yfir þúsund talsins og á þeim eru snjóstangir sem sýna staðsetningu í miklum snjó, m.a. til viðvörunar fyrir snjóruðningstæki.

Á ári hverju verða einhverjir götuskápar fyrir tjóni vegna ákeyrslu. Í einhverjum tilfellum eru tjónin minniháttar þannig að skápurinn einungis skekkist lítillega en í öðrum tilfellum er tjónið meira og afleiðingarnar geta orðið alvarlegar. Fyrir utan rafmagnsleysi sem oft fylgir tjóni á götuskáp, þá geta  götuskáparnir breyst í slysagildru  og orðið hættulegir þeim sem þá snerta. 

„Því miður virðast einhverjir gera sér það að leik að brjóta snjóstangir á götuskápum en á árinu 2020 þurfti að endurnýja á annað hundrað stanga sem höfðu verið brotnar af götuskápum víða um bæinn.

Við biðjum íbúa á Akureyri að hjálpast að við að koma í veg fyrir skemmdaverk sem þessi og forða þannig tjóni og hugsanlega slysi,“ segir í tilkynningunni á vef Norðurorku.

Nýjast