92% íbúa ánægðir með Akureyri sem stað til að búa á
92% íbúa Akureyrarbæjar eru ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á, samkvæmt könnun Gallups. Ánægja íbúa Akureyrarbæjar með þjónustu sveitarfélagsins eykst milli ára í 11 af þeim 13 þjónustuþáttum sem spurt er um. Þetta kemur fram í könnun Gallups um viðhorf íbúa til þjónustu sveitarfélagsins. Markmiðið með könnunni var að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og skoða breytingar frá fyrri mælingum.
Þá kemur fram að þriðjungur bæjarbúa á Akureyri eða 34% er óánægður með skipulagsmálin í bænum. Alls 37% sögðust ánægðir með skipulagsmálin en 30% hvorki né.
Ákall um bætta þjónustu við barnafjölskyldur
Þegar spurt var um þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu sögðust 18% svarenda vera óánægðir með þjónustuna. 51% eru ánægðir en 31% svöruðu hvorki né. Í frétt á vef Akureyrarbæjar segir að niðurstöður könnunarinnar varðandi barnafjölskyldur séu ákall íbúa sveitarfélagsins um að þjónusta við barnafólk verði betri, en fram kemur einnig í könnunni að 14% bæjarbúa eru ónægðir með þjónustu leikskóla sveitarfélagsins. Dagvistunarmálin á Akureyri hafa verið mikið í brennidepli undanfarið vegna plássleysis.
Afgerandi ánægja með aðstöðu til íþróttaiðkunnar
Þegar kemur að þjónustu við eldri borgara eru 53% ánægð með þjónustuna, 13% óánægð en 33% hvorki né. Þegar spurt var um þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu voru 53% ánægðir með þjónustuna, 13% óánægðir og 33% hvorki né. Aðstaða til íþróttaiðkunnar mælist sérstaklega vel fyrir hjá íbúum bæjarins en 85% svarenda eru ánægð með aðstöðuna en aðeins 5% óánægðir. Könnunin fór fram 7. nóvember 2018 - 2. janúar 2019 á meðal íbúa 19 stærstu sveitarfélaga landsins.