35% af kjötneyslu mannkyns verði stofnfrumuræktað kjöt

Það verður mikið efni og víðfemt undir á rástefnunni í Hofi, segir Pétur Þór Jónasson, formaður Auðs…
Það verður mikið efni og víðfemt undir á rástefnunni í Hofi, segir Pétur Þór Jónasson, formaður Auðs Norðursins. Mynd/MÞÞ

- Áskoranir í matvælaframleiðlu – Er stofnfrumuræktað kjöt framtíðin?

Ráðstefna Maturinn, jörðin og við fer fram í Hofi á Akureyri 10. og 11. nóvember .

 

Félagið Auður Norðursins í samstarfi við Byggðastofnun, og með stuðningi fleiri aðila, efna til ráðstefnu um áskoranir og tækifæri í matvælaframleiðslu, í nútíð og framtíð.

Eins og fram kemur í markmiði ráðstefnunnar verður fjallað um innlenda matvælaframleiðslu frá mörgum sjónarhornum. Efni ráðstefnunnar ætti því að höfða til margra, sér í lagi þeirra sem tengjast matvælaframleiðslu með einum eða öðrum hætti og þeirra sem móta stefnu á því sviði. Einnig til þeirra sem horfa til umhverfis- og loftslagsmála, almennrar samfélagsþróunar og byggða- og atvinnuþróunar um land allt. Þess er vænst að með ráðstefnunni skapist góð yfirsýn með upplýsingum og umræðu um þetta mikilvæga samspil sem getur skipt sköpum til framtíðar.

Vikublaðið ræddi við Pétur Þór Jónasson sem er formaður félagsins, Auður Norðursins.

 Loftslagsmál í deiglunni

„Á ráðstefnunni verður fjallað um þær miklu breytingar sem eru að verða á þessum tímum. Loftslagsmál hafa heilmikið að segja, þar eru áskoranir í framleiðslunni. Svo eru miklar neyslubreytingar út af breyttum lífstíl, heilsusjónarmiðum og ýmsu fleiru,“ segir Pétur.

Pétur segir jafnframt að á ráðstefnunni verði málefni matvælaframleiðslu á landinu öllu til umfjöllunar. „Matvælaframleiðsa er mjög stór á okkar svæði og því er þessi ráðstefna mikilvæg fyrir Norðurland í því samhengi,“ segir hann og bætir við að um viðamikla ráðstefnu sé að ræða sem varir í tvo daga. „Það kemur til af því að við erum að reyna dekka sviðið og það er verið að horfa á þessi mál frá sem flestum sjónarhornum.“

Fyrri dagur ráðstefnunnar verður farið yfir helstu áskoranir sem íslensk matvælaframleiðsla stendur frammi fyrir. Bæði í loftslagsmálum og líka í sambandi við næringu og möguleika á Norðurslóðum. „Þannig að það verður víða komið við fyrri daginn,“ segir Pétur.

Breytt neyslumynstur

Síðari daginn segir Pétur að skarpari fókus verði á einstakar greinar. „Hvað er verið að gera í framleiðslu innan landbúnaðarins og eins í sjávarútvegi. Síðan er horft líka á þessa áhrifaþætti eins og veganisma sem er mjög vaxandi á Íslandi eins og annars staðar. Hvaða sjónarmið  eru þar?“ segir hann og bætir við að dýravelferð sé þema sem horfa þurfi meira til.  „Enda er aukin pressa frá neytendum að huga vel að þeim þætti.“

Þá bendir Pétur á að lokaerindi ráðstefnunnar muni eflaust vekja mikla athygli hjá flestum. Þar verður þeirri spurningu velt upp hvort hægt sé að framleiða kjöt án þess að drepa dýr?

 Stofnfrumuræktun framtíðin

„Það getur vel verið veruleikinn í náinni framtíð,  að slík kjötframleiðsla fari fram á Íslandi. Orf líftækni eru í þessum rannsóknum þannig að það er heilmikið að gerast. Við ætlum að kíkja aðeins inn í þann heim, það eru heilmiklar framfarir í líftækni sem valda þessu,“ útskýrir Pétur.

Því hefur verið spáð að árið 2040 muni um 35% af kjötneyslu mannkyns vera stofnfrumuræktað kjöt. Í dag eru um 70 fyrirtæki í heiminum sem vinna að nýstárlegri tækni sem felur í sér framleiðslu á kjöti með stofnfrumuræktun, og án þess að drepa dýr.

Íslenska fyrirtækið ORF Líftækni fjallar um það hvernig fyrirtækið ræktar byggplöntur og nýtir erfðatækni til þess að framleiða nauðsynleg prótein fyrir stofnfrumuræktun á kjöti sem gæti breytt matarvenjum okkar til frambúðar. Auk þess er talið að þessi framleiðslutækni geti dregið verulega úr umhverfisvandanum sem heimurinn stendur frammi fyrir.

Dr. Björn Örvar vísindastjóri ORF Líftækni hf. mun fjalla um framlag fyrirtækisins í lokaerindi ráðstefnunnar.

/epe

smellið gif

Nýjast