30 ársverk hafa tapast í skógrækt vegna niðurskurðar
Norðlenskir skógarbændur gróðursettu alls ríflega 536 þúsund plöntur á liðnu ári og er það aukning upp á rúmlega 70 þúsund plöntur frá árinu á undan.
Á þessu ári er gert ráð fyrir að gróðursetja rúmlega 600 þúsund plöntur, þannig að í ár verða gróðursettar ríflega 100 þúsund fleiri plöntur en í fyrra. Aukningin er að sögn Valgerðar Jónsdóttur framkvæmdastjóra Norðurlandsskóga ekki til komin vegna aukinna fjárveitinga, þær eru enn skornar niður til þessa verkefnis.Fækkun starfsmanna og áframhaldandi aðhald í rekstri geri kleift að auka gróðursetningu.
Fjármagn til skógræktar í landinu hefur verið skorið allt of mikið niður á undanförnum árum. Stjórnvöld verða að fara að gera upp við sig hvort ætlunin sé að byggja upp þessa atvinnugrein, það verður ekki gert með áframhaldandi niðurskurði.
Skaðinn er að hluta til þegar skeður, segir Valgerður og vísar til þess að nýlega bárust fréttir af því að Barri á Egilsstöðum væri komin í þrot, aðrar gróðrarstöðvar sem sérhæfi sig í rekstri skógarplantna hafi átt mjög erfitt með að láta reksturinn ganga upp undanfarin ár.
Valgerður bendir á að nærri 30 ársverk hafi tapast í landinu vegna niðurskurðar í skógrækt, en gróðursettum plöntum hefur fækkað úr 6 milljónum plantna niður í 4 milljónir.