24 milljónir til stígagerðar á Glerárdal

Glerárdalur.
Glerárdalur.

Akureyrarbær hlaut nýverið 24 milljóna króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna annars áfanga stígagerðar og brúunar í fólkvanginum á Glerárdal. Framkvæmdir hófust síðasta sumar við gerð stígs sem mun liggja fram Glerárdal að austan, frá bifreiðastæði að Lamba, skála Ferðafélags Akureyrar. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæ. Verkefninu er skipt í þrjá hluta og í fyrra fékkst styrkur vegna fyrsta áfangans. Áfram verður haldið af fullum krafti, fyrir tilstuðlan þessarar úthlutunar, og byrjar næsti áfangi fjóra kílómetra inn á dalnum.

Í verkinu felst að rista fyrir stíg og setja stalla í hann, einnig að koma fyrir ræsum og brúun mýrlendis og lækja á um fjögurra kílómetra kafla. Stór hluti Glerárdals var friðlýstur sem fólkvangur árið 2016. Dalurinn er mótaður af jöklum og einkennist af stórbrotinni náttúru, fjölbreyttum berggerðum og gróðri, en mólendi og votlendi setja svip sinn á dalinn. Fólkvangurinn nýtur síaukinna vinsælda sem útivistarsvæði, en hefur löngum verið erfiður yfirferðar og er markmiðið að auka aðgengi að honum og almenna nýtingu.

Eftir að stígagerð hófst hafa fleiri en áður lagt leið sína fram á dalinn. Búið er að vinna skipulagsvinnu og teikna upp gönguleiðirnar samkvæmt samþykktum uppdrætti fólkvangsins. Stjórnunar- og verndaráætlun fólkvangsins var staðfest 2018 og eru allar framkvæmdir háðar samþykktum umhverfisstofnunar, segir á vef bæjarins.

Nýjast