13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
20 km jarðgöng vænsti kosturinn
Hreinn Haraldsson hefur tekið saman greinargerð um jarðgöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar að ósk Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akureyrarbæjar. Fram kemur í greinargerðinni að jarðgöng milli Hofsdals innan við Hóla og Barkárdals inn úr Hörgárdal sé vænsti kosturinn. Slík göng yrðu þó mjög löng eða alls um 20 km að lengd og skoða þyrfti mjög vel öryggismál í slíku mannvirki. Jarðgöngin myndu stytta vegalengdir milli byggðakjarna verulega.
Hugmyndir um jarðgöng á miðjum Tröllaskaga, milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar, hafa verið settar fram öðru hvoru á síðustu 20 árum eða svo. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur verið ötulast við að halda þessum hugmyndum á lofti. Hreinn bendir á í greinargerðinni að ef vinna eigi áfram að skoðun á þessum möguleikum virðist vænlegast að beina augum fyrst að göngum milli Hofsdals og Barkárdals og miða helst við að munnar yrðu í um eða undir 300 metra hæð yfir sjó.
Snemma árs 2019 samþykktu bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórn Skagafjarðar áskorun til stjórnvalda um að fjármagna grunnrannsóknir og samanburð á kostum á legu mögulegra jarðganga undir Tröllaskaga, auk rannsókna á samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkra ganga. Þar er einkum vísað til stækkunar vinnusóknarsvæða, styrkingar almennrar þjónustu og eflingar ferðaþjónustu, auk bættrar samkeppnisstöðu landshlutans.
Einnig er vísað til styttri vegalengda milli stærstu þéttbýlisstaða á Norðurlandi og aukins öryggis vegfarenda með nýrri leið sem sneiði fram hjá hæstu fjallvegum, og þar vísað til legu Hringvegar um Vatnsskarð og Öxnadalsheiði.