Tón - list

Ásgeir Ólafsson skrifar
Ásgeir Ólafsson skrifar

Þegar við skoðum myndlist skoðum við myndina og virðum hana fyrir okkur alla.  Þegar við lesum bækur og/eða ljóðlist lesum við öll orðin til að ná innihaldinu öllu. Þegar við skoðum högglist virðum við alla styttuna fyrir okkur og þegar við horfum á þætti eða bíómyndir þá horfum við á allt sem þar fer fram og megum ekki missa af neinu.   En við hlustum á eitt og eitt lag af heilli plötu sem tónlistarmaður gefur út.   Það er jafn mikil vinna lögð í öll hin lögin sem við missum af og heyrum kannski aldrei.  

Ég fór í Louvre safnið í París fyrir ekki svo löngu og sá þetta betur þegar við fórum í Ítölsku deildina. Þar var málverk eftir Leonardo DaVinci sem keypt var af Frakklandskonungi á sínum tíma fyrir litla 4000 gullpeninga eftir að listamaðurinn lést.  Það var aðstoðarmaður listamannsins sem hagnaðist á málverkinu þegar það fór til Frakklands.  Þarna hékk það inn á salerni hjá Leonardo og fór svo til Parísar í Konungshöllina.  Málverk sem ekki er mikið stærra en tölvuskjár að stærð, eða 77 x 53 cm.

En málverkið varð strax merkilegt af því að það fór í hendur Konungs.

Í sama herbergi í Louvre, hinumegin í salnum, beint á móti Monu Lisu var annað málverk sem fékk ekki  mikla athygli.  En það er 6 metrar á hæð og næstum 10 metrar á lengd og þakti heilan vegg.   Málverkið er  málað af Paolo Caliari og heitir  ,,The wedding feast at Cana“. Þar málar hann viðburðinn þegar Jesú breytti vatni í vín.  Það gerðist þar og er orðið löngu sögufrægur atburður.  Eitthvað sem allir þekkja. Og vildu kannski eiga? Eða sýna athygli?

En hver var þessi Lisa Gherardini og af hverju er 77 x 53 málverk orðið 120 milljarða króna virði í dag? Hvernig getur slíkt málverk laðað að eina milljón manna í Louvre safnið á degi hverjum? Já, á hverjum degi.  

Frakklandskonungur á 16. öld gerði það merkilegt af því að hann átti það.

Er sumsé hægt að markaðssetja ofan í mann list?  Er ekki list eitthvað sem er innra með okkur og mismunandi? 

Af hverju hlustum við ekki á alla plötuna með Bubba eða Björgvini? Af hverju hlustum við bara á eitt og eitt lag? Eru markaðsmenn og konur, útgefendur og tónlistarstjórar að stýra ofan í okkur því sem Á að verða vinsælt? Er þetta svona auðvelt? Eru þeir á pari við Frakklandskonung?

Málverkið sem var hinumegin í salnum fékk mikla athygli frá fimmtugum íslendingi sem kom á staðinn og nennti ekki í röðina að mynda Monu Lisu.   Það þótti ekki mörgum gestunum þetta 6 x 10 metra stóra málverk merkilegt og fékk hann því frið að skoða það gaumgæfilega.  

Sami aðili hlustar á alla plötuna með Bubba og Björgvini, í réttri röð,  og þótti mikið til koma hjá Paolo Caliari og málverkinu hans The Wedding feast at Cana.

Nýjast