20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Látum ekki blekkjast.
Kosningarnar eftir mánuð munu snúast um að skapa betri lífskjör fyrir venjulegt fólk hér á landi. Fyrir mér ættu framboðin nú að leggja fram sínar leiðir til að taka á verðbólgu, skapa tækifæri, efla velferðarkerfið og standa vörð um náttúruna, en sum hafa valið að spila á okkar lægstu hvata; ótta og andúð.
Heppilegur sökudólgur fyrir það sem erfiðlega gengur í samfélagi okkar eru útlendingar, hælisleitendur og flóttafólk. Ljóst og leynt hefur stjórnmálafólk reynt að mála upp þá mynd að vandamál okkar verði mörg leyst með strangari útlendingalöggjöf, með fleiri brottvísunum, með fangelsun fólks sem hingað leitar í svokölluðum lokuðum búsetuúrræðum. Það er nefnilega einfaldara að ráðast gegn innflytjendum en að horfast í augu við að sjálft markaðshagkerfið sem við byggjum samfélag okkar á sé ónýtt. Það er auðveldara að búa til blóraböggul en að skoða nýjar leiðir í að byggja upp efnahagskerfi okkar.
Vandamál íslensks samfélags eru ekki tilkomin vegna innflytjenda. Hvort sem við horfum á skólamálin, heilbrigðiskerfið, hjúkrunarheimilin, umhverfismálin, launajöfnuð eða kaupmátt þá er sameiginlegi þráðurinn sá að við höfum treyst kapítalísku markaðshagkerfi og nýfrjálshyggju straumi hennar til að vera umgjörð lífs okkar.
Við kaupum það umhugsunarlaust þegar stjórnmálafólk segir loftslagsaðgerðir þurfa að vera efnahagslega hagkvæmar. Eins og að það sé hægt að setja verðmiða á það í hvaða ástandi við skilum jörðinni til næstu kynslóðar. Eins blikkum við varla auga frammi fyrir þeirri tölfræði að 47.000 manns hafi lifað undir lágtekjumörkum á Íslandi árið 2020, þar af 9.400 börn. Umgjörð samfélagsins okkar þarfnast misskiptingar, þarfnast þess að einhver séu fátæk svo að önnur geti verið vel sett eða rík. Í stað þess að berjast gegn þessu keppast of mörg okkar fyrst og fremst eftir því að vera vel sett og rík.
Ég vil frekar búa í samfélagi en hagkerfi, frekar vera manneskja en markaðsvara. Eins vil ég horfast í augu við það að ég, neysla mín, venjurnar mínar og hugsanagangur minn eigi sök í því að samfélagið sé í vanda frekar en að þessir tæplega 1000 einstaklingar sem fengið hafa alþjóðlega vernd í ár séu vandamálið.
Félagshyggju nálgun á efnahagskerfið er leiðin að jöfnuði í samfélaginu. Leiðin að því að útrýma sérhagsmunagæslu fyrirtækja og auðmanna, leiðin að því að tryggja réttlæti og sanngirni. Við sköpum bætt lífskjör með breytingum á skattkerfi sem jafnar bilið á milli þeirra tekjulægstu og tekjuhæstu, með eflingu óhagnaðardrifinna leigufélaga, leiguþaki, lágmarkslaunum sem duga til framfærslu og með því að draga úr tekjutengingu og skerðingum í almannatryggingakerfinu. Þetta er lítið brot af þeim lausnum sem Vinstri Græn leggja fram á grundvelli félagshyggju, velferðar og jöfnuðar.
Kaupið ekki blekkingar, útlendingaandúð og hræðsluáróður þeirra sem vilja standa vörð um misskiptingu og sérhagsmunagæslu markaðsafla. Þorum að endurhugsa efnahagskerfin okkar, þorum að velja félagshyggju og mannúð.
Sindri Geir Óskarsson
Oddviti VG í Norðausturkjördæmi.