Dagskráin 18.desember - 8.janúar 2025
Hver verður þingmaður þinn?
Þegar kosningabaráttan nær hámarki og fjöldi kjósenda er enn óákveðinn, er eðlilegt að spyrja sig: „Hvernig tek ég rétta ákvörðun á kjördag?“ Margir kjósendur eru orðnir þreyttir á óljósum kosningaloforðum sem gætu aldrei orðið að veruleika. Þrátt fyrir það þurfa stjórnmálaflokkar að kynna stefnu sína og sýna hvernig þeir vilja leiða þjóðina til betri vegar. En er það nóg? Er rétt að treysta eingöngu á kosningapróf eða stór loforð? Kannski er kominn tími til að horfa meira til fólksins sem við setjum í lykilstöður.
Kosningapróf, sem margir taka þessa dagana, geta verið gagnleg. Þau hjálpa okkur að skýra skoðanir okkar á ýmsum málefnum sem við veltum kannski ekki daglega fyrir okkur. En, eins og flestir hafa tekið eftir, er niðurstaðan oft óskýr. Flokkar lenda á svipuðum stað, eða niðurstaðan breytist eftir því hvaða próf er tekið. Þetta undirstrikar einfalt en mikilvægt atriði: Við erum ekki bara að kjósa stefnu. Við erum að kjósa fólk.
Val á fólki – mikilvægi þingmannsins
Þingmenn eru ekki bara andlit stefnumála. Þeir eru þau sem framkvæma þau og bera ábyrgð á að fylgja þeim eftir. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá erum við að ráða 63 einstaklinga til fjögurra ára vinnu. Þess vegna ættum við að spyrja okkur: „Hver verður þingmaðurinn minn?“
Þegar þú kýst, skaltu skoða hverjir eru í framboði í þínu kjördæmi. Þekkja þau þitt svæði og skilja þau þarfir þess? Hvar búa þau? Er það manneskja sem þú getur nálgast, átt í samskiptum við og treystir til að góðra verka fyrir þitt samfélag og okkar þjóðfélag? Þessar spurningar eru kannski mikilvægari en hvort flokkurinn hafi boðið eina milljón hér eða tvær milljónir þar í kosningaloforðum. Þegar stjórnmálamenn vinna fyrir kjósendur, skiptir það sköpum hvort þeir hafi hjartað og heiðarleikann til að vinna fyrir sitt svæði af heilindum. Þetta skiptir máli ekki síst í landsbyggðunum og svo fjarri höfuðborginni sem Norðausturkjördæmið er – og Austurland.
Fjölbreytni skiptir máli
Það er líka mikilvægt að skoða hverjir ná inn á þing fyrir þitt kjördæmi. Er hópurinn fjölbreyttur og endurspeglar hann samfélagið sem hann á að þjóna? Á Íslandi höfum við lengi barist fyrir jafnrétti en samt erum við í þeirri stöðu að karlar eru enn í meirihluta á Alþingi. Í Norðausturkjördæmi er jafnvel líklegt að hlutfallið verði 8 karlar á móti 2 konum. Endurspeglar það okkar samfélag? Varla.
Við vitum hversu mikilvægar og öflugar þingkonur hafa verið fyrir þetta kjördæmi. Þórunn Egilsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir eru góð dæmi um konur sem unnu af heilindum og afrekum fyrir sitt svæði og þjóð. Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar, hefur líka skarað fram úr í vinnu sinni á Alþingi og staðið vörð um stóra málaflokka og hagsmuni kjördæmisins. Með henni í forystusætum núna eru Jónína Brynjólfsdóttir og Þuríður Lillý Sigurðardóttir, tvær öflugar konur sem hafa sýnt og sannað sig í sveitarstjórnarmálunum annars vegar í Múlaþing og hinsvegar í Fjarðabyggð. Þessar konur eru sterkar raddir fyrir kjördæmið og nærsamfélög okkar hér á Austurlandi.
Að lokum
Kosningadagar eru hátíðisdagar. Þeir móta framtíð okkar og samfélagsins. Þegar þú velur á kjördag, ekki bara horfa á slagorð eða fögur loforð. Hugsaðu um fólkið sem þú ætlar að treysta til að vinna fyrir þig og þitt svæði. Spurðu þig: „Hver verður þingmaðurinn minn?“ Svaraðu þeirri spurningu af heilindum og þá muntu taka upplýsta og áhrifaríka ákvörðun.
Höfundur: Ásdís H. Bjarnadóttir, skipar 7. sæti á lista Framsóknarflokksins.