Bakþankar bæjarfulltrúa Því ekki að gera tilraun?
Það snjóaði um daginn. Götur urðu flughálar. Og ég dreif mig með bíl konu minnar í dekkjaskipti. Þú kemst að eftir tíu daga, var svarið sem ég fékk.
Og það stóð heima, þegar naglarnir voru komnir undir voru götur bæjarins orðnar marauðar. Og þó ekki. Í köntum mátti víða sjá mósku-skít-gráan snjó og rykský lá víða yfir svo engu var líkara en að bíll konu minnar færi um gömlu góðu malarvegina – og það í miðjum kaupstaðnum. Talandi um svifryksmengun.
Og enn sjáum við leifar hálkuvarnanna, sand-drullu-manir á götunum okkar.
Ég spyr: Skýtur það ekki skökku við að setja niður götu-þröskulda víðs vegar um bæinn einmitt til að drepa niður umferðarhraða en þegar náttúran leggur okkur lið bregðumst við öndvert við og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að ökumenn geti farið sem hraðast um?
Því ekki að gera tilraun, látum vera einn vetur að sandbera?
Nei, það gengur ekki hefur mér verið bent á. Sjúkrahúsið mun þá troðfyllast af beinbrotnu fólki.
Allt í lagi, hálkuverjum gangstéttir en ekki umferðargötur.
Nei, það gengur ekki heldur, sjáðu bara öll gilin.
Við bara lokum þeim þessa örfáu daga sem þau eru til vandræða. Höfum líka hugfast að ætla má að 80% bílaflota bæjarbúa sé búinn nagladekkjum þegar vetrar. Akureyri er nagladekkjabær.
Hvernig væri nú að bæjaryfirvöld og Vegagerðin tækju höndum saman um að prófa einn sandlausan vetur? Látum náttúruna hafa sinn gang og hættum að menga umhverfið með öllum þeim kostnaði og heilsuspillandi áhrifum sem svifrykið hefur.
Jón Hjaltason
Óháður