Þegar kemur að því velja eina flugu úr frumskógi veiðiflugna vandast málið. Ein þeirra hefur þó gefið mér flesta laxa gegnum tíðina og hlýtur því vinninginn að þessu sinni. Sú heitir Sunray Shadow og finnst líklega í flestum veiðiboxum á landinu og þó víðar væri leitað.
Upphaflegur arkitekt þessarar vinsælu laxveiðiflugu var Bretinn Raymond Brooks en hannn hannaði fluguna snemma á sjöunda áratugnum er hann var við veiðar ásamt konu sinni í hinni sögufrægu laxveiðiá Lærdalselva í Noregi. Titill flugunnar er sóttur í nafn veiðikofa sem þau hjónin bjuggu í við ána, kallaður Sunray Lodge og því hvernig flugan birtist sem skuggi í vatninu ((shadow). Fluguna hnýtti Raymond sem túbu og notaði til þess svört apahár í langan væng flugunnar, stíf hvít íkornahár til að styðja undir vænginn og smellti síðan páfuglsfönum ofan á allt saman til að gera fluguna meira áberandi. Í dag nota menn annan efnivið í fluguna og ýmsar útfærslur finnast hvað varðar lit, gerð, þyngd ofl.