20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Vá. Bara vá!
Síðastliðinn föstudag frumsýndi Leikfélag unga fólksins verkið FML. Höfundar og leikkonur verksins eru á aldrinum 14-16 ára og verkið endurspeglar veruleika ungmenna í dag. Titill verksins er flestum kunnur en ef til vill eru einhverjir ellismellir sem ekki þekkja meiningu þessarar skammstöfunar, sem borin er fram fokk mæ læf. Slettur og slangur unga fólksins eru áberandi og merking þeirra útskýrð á skondin hátt fyrir þeim sem eldri eru. Ég hef hingað til talið mig vera með á nótunum hvað slangur varðar en komst að raun um að svo er aldeilis ekki. Ég er þó margs fróðari eftir þessa sýningu og get nú slegið um mig með hinum ýmsu hugtökum eins og bae, streak og seena.
Verkið er eins og áður kom fram samið af ungu fólki, um ungt fólk og leikið af ungu fólki. Það endurspeglar raunveruleika ungs fólks í dag á bæði dásamlega kómískan hátt og á einlægan og tilfinningaríkan hátt. Samfélag okkar hefur breyst og þróast gífurlega á síðustu árum, þá sérstaklega hvað varðar menningar- og upplýsingaflæði og hina tiltölulega nýkomnu samfélagsmiðlamenningu. Þær líkamlegu breytingar sem ungmenni ganga í gegnum hafa alltaf verið þær sömu og það er ekki nýtt af nálinni að unglingar upplifi sig á skjön í veröld hinna fullorðnu. Þó er svo margt annað sem tilheyrir því að vera ungmenni í dag, sem ekki var hluti af lífi ungmenna fyrir 40, 20 eða jafnvel 10 árum síðan.
Viðfangsefni sýningarinnar eru mörg og mikilvæg, líkamsímynd, kvíði, sjálfsskaði, vanmáttur og óraunhæfar kröfur svo eitthvað sé nefnt. Þá er verkið einnig mikilvæg ádeila á heim hinna fullorðnu og forneskjuleg viðhorf, hómófóbía, skortur á kynfræðslu, misvísandi reglur og síðast enn ekki síst hlýnun jarðar. Ungt fólk sem ítrekað lýsir yfir áhyggjum af loftslagsbreytingum en fær lítinn hljómgrunn ráðamanna og fullorðins fólks sem ekki er tilbúið að horfast í augu við vandann og axla ábyrgð. Gagnrýnin beinist þó ekki öll að hinum fullorðnu heldur eru stelpurnar óhræddar við að gera grín að ýmsum kimum unglingamenningar, ekki síst miklu vægi samfélagsmiðla í lífi þeirra.
Öll höfum við verið ung og getum tengt við ýmis vandamál sem ungmennin í verkinu þurfa að kljást við, óöryggi í nýjum aðstæðum og sú tilfinning að við séum stundum alveg ómöguleg. Skemmtilegt atriði sem talaði sérstaklega til mín sýndi á skondin hátt hvernig hugsanirnar eiga það það til að þvælast fyrir okkur. Óöryggi og fyrirframgefnar hugmyndir um hvað öðrum kunni að finnast um okkur er oft ímyndun ein og endurspegla á engan hátt hvernig við komum öðrum fyrir sjónir.
Þó viðfangsefni verksins séu mörg hver alvarleg er sýningin heilt yfir mjög létt og skemmtileg. Verkið er samsett úr stuttum leikþáttum sem til skiptist eru fyndnir og skemmtilegir, og svo alvöruþrungnir og einlægir. Flæðið er gott og skiptingarnar áreynslulausar þó ört sé skipt á milli atriða með ólíkt andrúmsloft og viðfangsefni. Ég bókstaflega engdist um og táraðist af hlátri í sumum atriðum en fékk svo kökk í hálsinn og fylltist af sorg í því næsta. Útlit og yfirbragð sýningarinnar er einfalt, sviðsmyndin er hvít og sömuleiðis fatnaður leikkvennanna. Þessi einfaldleiki gerir það að verkum að orð þeirra og verkið sjálft fær meira vægi, öll athygli er á leikkonunum og því sem þær hafa að segja.
Leikkonurnar sýndu hreint út sagt magnaða frammistöðu. Í upphafsatriðinu var örlítill vottur af stressi en það var fljótt fokið út í veður og vind og það er óhætt að segja að leikkonurnar ungu eru fagmenn fram í fingurgóma. Hver og ein fór með mörg hlutverk, skipting milli þeirra var algjörlega áreynslulaus og hver og ein trúverðug í öllum sínum hlutverkum. Ég efast ekki um að við munum sjá og heyra meira af þessum stúlkum í framtíðinni, þær eiga einfaldlega heima í sviðslistinni. Ég dáist að því hve kjarkaðar og óhræddar þær eru við að láta í sér heyra, gagnrýna og benda á það sem þarf að gera betur. Það er einmitt það sem samfélag okkar þarf á að halda, ungt fólk sem segir skoðun sína tæpitungulaust og nær eyrum þeirra sem eldri eru.
FML er sýning sem ég mæli hiklaust með fyrir alla, jafnt unga sem aldna. Unga fólkið þarf að sjá og heyra að þeirra skoðanir og sjónarmið hafa pláss og vægi í samfélaginu, og við sem eldri erum þurfum að hlusta. Takk fyrir þessa frábæru og beittu sýningu. Vel gert MAk fyrir að skapa þennan vettvang fyrir ungt fólk. Virkilega vel gert ungu handritshöfundar og leikkonur og allir aðrir sem komu að sýningunni. Ykkar skoðanir skipta máli og þurfa að heyrast.
-Hrönn Björgvinsdóttir, verkefnastjóri ungmennamála á Amtsbókasafninu.