Útskriftarsýning í Ketilhúsinu

Útskriftarhópurinn í Ketilhúsinu. Mynd: VMA.is
Útskriftarhópurinn í Ketilhúsinu. Mynd: VMA.is

Sýning níu útskriftarnema við listnáms- og hönnunarbraut Verkmenntaskólans á Akureyri verður opnuð í Ketilhúsinu á laugardag klukkan 15.  Sjö af þessum níu nemendum, sem allir útskrifast frá VMA í desember nk., eru á textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar en tveir eru á myndlistarlínu.

Það er árlegur viðburður að útskritarnemar á listnáms- og hönnunarbraut haldi sýningu á verkum sínum fyrir útskrift og er þetta annað árið í röð sem sýningin er sett upp í samstarfi við Listasafnið á Akureyri.

„Við undirbúning slíkra sýninga velja nemendur sér verkefni eftir áhugasviði þar sem þeim gefst tækifæri til að kynna sér nýja miðla eða dýpka skilning sinn á þeim sem þeir hafa áður kynnst. Að baki verkunum liggur hugmynda- og rannsóknarvinna og leita nemendur víða fanga í eigin sköpunarferli, allt eftir því hvað hentar hverri hugmynd og þeim miðli sem unnið er með. Nemendur fá eina önn til að vinna að lokaverkefnum sínum og uppsetningu sýningar í samtali og samvinnu við leiðsagnarkennara og samnemendur þar sem frumkvæði, hugmyndaauðgi og öguð vinnubrögð eru lögð til grundvallar,“ segir á vef VMA.

Myndir af útskriftarhópnum má skoða með því að smell hér.

Á sýningunni gefur m.a. að líta ljósmyndir, málverk, fatahönnun, grafíkverk og teikningar.

Sýningin verður opin til 11. desember, þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17. Leiðsögn um sýninguna og aðrar sýningar á vegum Listasafnsins á Akureyri er á fimmtudögum kl. 12.15. Aðgangur að sýningunni er ókeypis og eru allir hjartanlega velkomnir.

 

Nýjast