Tveir bátar Norðursiglingar halda til hvalaskoðunar og hvalarannsókna
Þrátt fyrir núgildandi takmarkanir vegna Covid-19 ástandsins hefur aðsókn í hvalaskoðun hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Norðursiglingu á Húsavík verið virkilega góð í haust og á laugardaginn var eftirspurnin það mikil að fara þurfti aukaferð síðar um daginn.
„Það telst því til tíðinda að á meðan víða um land hafa ferðaþjónustufyrirtæki gert hlé á starfsemi sinni þá þurfi að bæta við ferðum í hvalaskoðun á Húsavík. Vissulega kemst takmarkaður fjöldi í hverja ferð vegna gildandi reglna en engu að síður er óhætt að segja að enn og aftur standi Húsavík undir nafni sem höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Síðastliðinn laugardag héldu tveir bátar Norðursiglingar úr höfn á Húsavík í fallegu haustveðri. Það telst í sjálfu sér almennt ekki til tíðinda þegar slíkt gerist en að þessu sinni var þó um nokkuð fréttnæma útsiglingu að ræða. Um borð í Náttfara voru ferðamenn á leið í hefðbundna þriggja tíma hvalaskoðunarferð.
Á sama tíma og Náttfari hélt úr höfn til hvalaskoðunar lagði Garðar af stað í lengri leiðangur en vanalega. Um borð var sex manna áhöfn skipuð starfsfólki Norðursiglingar, Ocean Missions og Háskóla Íslands og var ferðinni heitið vestur fyrir land. Með í för voru tvö neðansjávarhljóðupptökutæki sem koma átti fyrir í sunnanverðu Grænlandssundi. Um er að ræða verkefni WWF (World Wildlife Fund) í samvinnu við Háskóla Íslands og markmiðið er að rannsaka umferð og atferli hvala í samhengi við skipaumferð. Fyrst og fremst er áherslan á steypireyðar en einnig önnur stórhveli og vonast er til að upptökur náist af sléttbökum (e. North Atlantic Right Whale) en þeim hefur verið nánast útrýmt. Heildarlengd siglingarinnar er um 600 sjómílur sem er hátt í vegalengdina frá Húsavík til vesturstrandar Noregs.
Norðursigling var fengin til verksins en fyrirtækið hefur lengi átt í góðu samstarfi við Háskólann á sviði hvalarannsókna. Að sögn Heimis Harðarsonar skipstjóra og eiganda Norðursiglingar er það mikill heiður fyrir fyrirtækið að fá að taka þátt í þessu verkefni og ánægjulegt að sjá báta fyrirtækisins sigla út bæði til hvalaskoðunar og hvalarannsókna á sama tíma.
Arngrímur Arnarson markaðsstjóri Norðursiglingar sagði í samtali við Vikublaðið að haustið sé búið að vera með eindæmum gott miðað við aðstæður og að reiknað sé með því að siglt verði út vertíðina sem líkur 30. nóvember eins og fyrri ár. „Þannig að við höldum áfram á meðan einhverjir eru á svæðinu,“ segir hann.