,,Tungumálið er lykillinn"

Dóra Ármannsdóttir, íslenskukennari.
Dóra Ármannsdóttir, íslenskukennari.

„Farkennarinn – íslenska á vinnustað“ er dæmi um vel heppnað verkefni sem leitar leiða til að mæta þörfum vinnumarkaðarins og þátttakenda með markvissri og hagnýtri íslenskukennslu. Með stuðningi Norðurþings og eldmóði þátttakenda er verkefnið að skila áþreifanlegum árangri sem nýtist bæði starfsfólki og samfélaginu í heild. Dóra Ármannsdóttir er reyndur íslenskukennari en hún heldur utan um kennsluna

 

Árið 2022 hlaut Þekkingarnet Þingeyinga styrk úr þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar til að hanna og þróa nýjar leiðir í íslenskukennslu. Í samstarfi við Þráinn Árna Baldvinsson var þá lögð áhersla á kennslu íslensku í gegnum söngvaarf þjóðarinnar. Verkefnið vakti mikla ánægju og leiddi til áframhaldandi styrks á síðasta ári, að þessu sinni í samstarfi við Norðurþing.

Verkefnið, sem ber heitið Farkennarinn – íslenska á vinnustað, miðar að því að þróa nýjar og aðlagaðar aðferðir til íslenskukennslu með nánu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Íslenskukennslan er færð út fyrir hefðbundnar kennslustofur og fer fram á vinnustaðnum sjálfum, á vinnutíma starfsmanna. Þetta snið hentar sérstaklega vel þar sem fjarkennsla er ekki raunhæfur valkostur, og lögð er áhersla á að taka mið af þörfum hvers vinnustaðar og starfsumhverfis. Það er Dóra Ármannsdóttir íslenskukennari og fyrrum skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík sem heldur utan um kennsluna.

Hefur kennt innflytjendum í tæp átta ár

„Ég hef kennt útlendingum íslensku síðan árið 2017 þegar ég byrjaði hjá Þekkingarnetinu og er búin að vera með nokkur námskeið á ári síðan, svona eftir eftirspurn,“ segir Dóra í samtali við Vikublaðið.

Áður en kennslan hófst var gerð ítarleg greining á þörfum þátttökustaða með aðstoð yfirmanna á hverjum stað. Verkefnið spannar fjölbreyttar starfsstöðvar hjá Norðurþingi. Greiningin lagði mat á hvaða orðaforða og tungumálakunnáttu væri nauðsynleg í hverju starfi fyrir sig, ásamt því að kortleggja áherslur í þjálfun sem tengjast vinnustaðnum og faginu. Ákveðið var að kenna tvisvar í viku á vinnutíma og tóku yfirmenn vel í að hliðra til svo hægt væri að veita nemendum svigrúm til að mæta í kennsluna.

Dóra Ármanns kennir starfsfólki í ferðaþjónustunni á Húsavík, íslensku árið 2017. Mynd/ Þekkingarnet Þingeyinga.

Alls taka 19 starfsmenn frá mismunandi vinnustöðum þátt í verkefninu, þar á meðal Leikskólanum Grænuvöllum, Sundlauginni á Húsavík, Frístund, Pálsgarði, Vík, Miðjunni og Stjórnsýsluhúsi. Forsvarsfólk Norðurþings tók strax vel í verkefnið og hefur Fjölmenningarfulltrúi, Nele Marie Beitelstein, veitt ötulan stuðning við framkvæmd þess. Auk þess hefur Norðurþing fjárfest í aðgengi að Bara tala appinu til að veita þátttakendum frekari verkfæri í íslenskunáminu.

Miklar framfarir

Að sögn Dóru er áhersla lögð á hagnýta þjálfun sem byggir á raunverulegum aðstæðum vinnustaðanna. „Nemendur hafa sýnt verulegar framfarir á skömmum tíma, bæði í orðaforða og í færni til að nýta íslenskuna í daglegu starfi,“ segir hún.

„Þetta verkefni sem við byrjuðum á í haust er nýtt og frábrugðið því sem ég hef áður gert. Kennslan fer fram tvisvar í viku á þessum vinnustöðum en ég kenni 45 mínútur í leikskólanum og tvisvar 45 mínútur hjá félagsþjónustunni af því að þar eru fleiri starfsmenn. Ég er með tvo hópa þar, lengra og skemmra komna“ útskýrir Dóra og bætir við að það geti verið áskorun að kenna hópum sem hafa jafn fjölbreyttann tungumálabakgrunn.

„Á leikskólanum eru pólskar og litháenskar konur en hjá félagsþjónustunni eru starfsmennirnir frá Póllandi, Þýskalandi, Indónesíu, Ungverjalandi og Spáni Það getur alveg verið áskorun að kenna nemendahópi sem kemur úr svo fjölbreyttu málumhverfi. Flestir eru samt með einhverja ensku kunnáttu annars fer þetta einnig fram í leikrænni tjáningu,“ segir hún og hlær.

Tímamóta smáforrit

Áratuga reynsla Dóru við íslenskukennslu nýtist vel í verkefninu enda þarf að laga það að aðstæðum hverju sinni. „Ég er að spila þetta mikið af fingrum fram enda er ekkert námsefni sem liggur fyrir sem er sérhannað fyrir þessa hópa. Ég nota það sem ég á og svo bý ég bara til námsefni eftir þörfum, en svo erum við að vinna með app sem heitir „Bara tala“ sem Norðurþing keypti aðgang að en sveitarfélagið á hrós skilið fyrir þeirra framlag í þessu verkefni,“ segir Dóra og bætir við að hún sé búin að liggja yfir forritinu sjálf og kveðst afar ánægð með það.

„Nemendur hafa líka legið yfir þessu en þau eru með forritið í símunum sínum og geta tekið próf í gegnum það og hvað eina. Það góða við forritið er að flestir nemendur mínir geta með aðstoð þess lært íslensku í gegnum sitt eigið móðurmál. Þau sem eru ekki með sitt eigið tungumál læra hins vegar í gegnum ensku eins og ég nota mikið minni kennslu,“ útskýrir Dóra.

Áþreifanlegur ávinningur

Nemendur hafa sýnt góðan árangur nú þegar og eru í stöðugri framför. Dóra er ekki í vafa um að ávinningurinn af verkefninu sé áþreifanlegur, bæði fyrir nemendurna sjálfa en ekki síður fyrir samfélagið í Norðurþingi.

„Það skiptir rosalegu máli að innflytjendurnir okkar geti tjáð sig á þeirri tungu sem við notum í landinu sem þeir starfa og búa í. Mér finnst innflytjendur almennt vera mjög jákvæðir fyrir því að læra íslensku en málið er bara það að yfirleitt er þetta fólk í fullri vinnu og með börn að fóta sig í nýju samfélagi. Það er bara flókið að koma því við að læra tungumálið. Ég skil það mjög vel að fólk hafi ekki orku í að vera tvisvar í viku á kvöldin í 10 vikur að læra erfitt tungumál. Þess vegna er svo mikilvægt að atvinnulífið reyni að koma til móts við fólk sem yfirhöfuð vill læra. Út á það gengur þetta verkefni okkar, að fólk fái þessa kennslu á sínum vinnustöðum á vinnutíma,“ segir Dóra og bætir við samfélagið verði ríkara ef innflytjendur taka fullan þátt í því.

Mikilvægt fyrir samfélagið

„Það er rosalega mikilvægt fyrir einstaklingana sjálfa að læra íslensku en það má ekki gleyma því að þetta er líka mikilvægt fyrir samfélagið. Ef fólkið vill lifa hér og starfa og við viljum að það taki þátt í samfélaginu, þá verður að hjálpa því að læra málið. Það er einu sinni þannig að tungumálið er lykillinn að samfélaginu,“ segir Dóra Ármannsdóttir að lokum.

„Samstarf Þekkingarnetsins og Fjölmenningarfulltrúa Norðurþings hefur leitt til fleiri spennandi verkefna, sem verða kynnt á næstu mánuðum,“ segir á vef Þekkingarnetsins.

Nýjast