Leikfélag Menntaskólans á Akureyri setur upp Galdrakarlinn í Oz

Galdrakarlinn í Oz er stór og mannmörg sýning, um 100 nemendur taka þátt í verkefnum við uppfærsluna…
Galdrakarlinn í Oz er stór og mannmörg sýning, um 100 nemendur taka þátt í verkefnum við uppfærsluna sem er mjög metnaðarfull

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri frumsýnir Galdrakarlinn í Oz í Menningarhúsinu Hofi annað kvöld, föstudagskvöldið 14. mars. Fjöldi nemenda sem með einum eða örðum hætti tekur þátt í sýningunni er um 100 en nemendur skólans eru í allt um 550. Áhugi á leiklist er mikill í MA og í raun komust færri að en vildu.

Unnur Ísold Kristinsdóttir formaður LMA segir að mikil aðsókn hafi verið í allt sem viðkemur sýningunni, hvort heldur var að leika á sviðinu eða vera með í öðrum teymum. . „Það var mikil aðsókn í allar prufur, ekki bara að leika heldur líka að taka þátt í öðrum verkefnum, eins og danshóp og það á einnig við um fólkið á bak við tjöldin, við erum með hljómsveit og listræn teymi sem sjá um leikmynd, búninga, förðun og tækni auk þess sem við erum með nemendur sem sjá um markaðsstörf. Það var alls staðar sama sagan, mikil ásókn í að taka þátt.“

Unnur Ísold Kristinsdóttir formaður LMA 

Fleiri þurfa á hjálp að halda

 Margir kannast við Galdrakarlinn í Oz en í sögunni segir frá því þegar fellibylur feykir húsi Dórótheu til framandi töfralands og hún, ásamt hundinum Tótó, vill komast aftur heim. Hún ákveður að leita hjálpar hjá Galdrakarlinum í Oz og á leiðinni til hans hittir hún heilalausu Fuglahræðuna, hjartalausa Tinkarlinn og huglausa Ljónið. Það eru því fleiri sem þurfa á hjálp að halda og saman halda vinirnir í mikla ævintýraferð.

Fjölskyldusýningar vinsælar

Unnur segir að um árin hafi sýningar LMA fengið mikla og góða aðsókn og vilvilji sé mikill í garð félagsins í samfélaginu. „Við höfum um árin oft valið að setja upp sýningar sem henta allri fjölskyldunni og þær hafa fallið í kramið. Það er mikill vilji til þess norðan heiða að sækja leikhús og við njótum góðs af því,“ segir hún.

Búið er að setja upp 6 sýningar á Galdrakarlinum, en tvær sýningar eru næstkomandi sunnudag, kl. 13 og 17 og þá er sýning þar næsta föstudag og tvær sýningar sunnudaginn 6. apríl.

Leikstjóri er Egill Andrason. Aðstoðarleikstjórar eru Stormur Thoroddsen og Agnes Inga Eldjárn. Danshöfundar eru Ásta María Viðarsdóttir og Auður Gná Sigurðardóttir Tónlistarstjórnendur eru Helga Björg Kjartansdóttir og Viktoría Sól Hjaltadóttir.

 

 

 

Nýjast