Skriðjökull til liðs við SúEllen, tónleikar á Græna hattinum í kvöld

SúEllen félgar fagna nýjum hljómborðsleikara: Fv. Guðmundur R. Gíslason söngvari, Jóhann Geir Árnas…
SúEllen félgar fagna nýjum hljómborðsleikara: Fv. Guðmundur R. Gíslason söngvari, Jóhann Geir Árnason trommuleikari, Steinar Gunnarsson bassaleikari, Bjarni Halldór Kristjánsson gítarleikari og Jóhann Ingvason hljómborðsleikari. Fyrstu heilu tónleikar sveitarinnar í 6 ár verða á Græna hattinum annað kvöld. Mynd aðsend

Nú hefur norðanmaðurinn Jóhann Ingvason hljómborðsleikari Skriðjökla gengið í SúEllen frá Neskaupstað. Félagarnir eru með sína fyrstu heilu tónleika í 6 ár á Græna hattinum í kvöld, 14. mars.

Það var mikið sungið á æskuheimili Jóhanns Ingvasonar í Löngumýri á Akureyri enda faðirinn 1. tenór og harmonikkuleikari. Svo voru líka sex syngjandi systur og bróðir sem trommar. Jóhann var sendur í píanónám sem barn, en áhuginn dvínaði vegna lesblindu á nótur. Hann lét það ekki stoppa sig og spilaði eftir eyranu fram á unglingsárin. í Gaggó byrjaði svo hljómsveitastúss með félögum sem síðar stofnuðu Skriðjökla. Í Menntaskólanum á Akureyri var Jóhann fljótlega munstraður sem konsertmeistari, en það er sá nemandi sem spilar undir á Söngsal og öðrum viðburðum.

Eftir MA flutti hann til Reykjavíkur og hóf síðar nám í Tónlistarskóla FÍH ásamt því að spila með “pöbbaböndum” á borð við Sköllótta mús og Kórdrengjum. Seinna flutti hann til Boston og nam hljóðupptökufræði við Berklee College of Music. Útskrifaðist þaðan 1994 og vann um skeið í nokkrum hljóðverum í Boston og sem sérfræðingur í hljómborðum og stafrænum upptökubúnaði í Guitar Center.

Tröllum á meðan við tórum

Jóhann er Skriðjökull frá upphafi en hefur starfað með fjölmörgum hljómsveitum að auki. Jóhann hefur verið söngmaður síðan 2017 í Karlakórnum Fóstbræðrum. Mottó Jóhanns: “Hæ tröllum á meðan við tórum, það var pabba vani og það er minn”.

 

Nýjast