Þorsteinn snýr aftur í Samkomuhúsið

Þorsteinn Bachmann.
Þorsteinn Bachmann.

Stórleikarinn Þorsteinn Bachmann leikur í söngleiknum Vorið vaknar sem Leikfélag Akureyrar setur á svið Samkomuhússins í byrjun næsta árs. Þorsteinn er velkunnugur Samkomuhúsinu en hann hefur starfað hjá leikfélaginu bæði sem leikari og leikhússtjóri.

Í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar segir að Þorsteinn sé fullur tilhlökkunar að stíga á svið á ný í Samkomuhúsinu eftir um það bil 15 ára hlé.

„Þetta er eitt allra besta svið á landinu og þótt víðar væri leitað. Frábær hljómburður og notalegur salur með mikla sögu og góðan anda,“ segir Þorsteinn.

Vorið vaknar verður frumsýnt í lok janúar. Söngleikurinn fjallar um fyrstu kynlífsreynslu, skólakerfið, kvíða og frelsisþrá unglinga í afturhaldssömu og þröngsýnu samfélagi 19. aldarinnar sem leyfir engin frávik frá hinu viðtekna. Uppfærsla söngleiksins á Broadway árið 2006, hlaut átta Tony verðlaun og þar á meðal sem besti nýi söngleikurinn. Uppsetningin vann þar að auki fjölda annarra verðlauna og tilnefninga og hefur farið sigurför um heiminn allar götur síðan. Vorið vaknar er nú sett upp í fyrsta sinn í atvinnuleikhúsi á Íslandi.

Aðrir leikarar eru Ahd Tamini, Ari Orrason, Árni Beinteinn Árnason, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Eik Haraldsdóttir, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Júlí Heiðar Halldórsson, Rúnar Kristinn Rúnarsson, Viktoría Sigurðardóttir og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir. Marta Nordal leikstýrir.

 

 

Nýjast