Sportveiðiblaðið komið út
Út er komið 3 tbl 42 árgangur af Sportveiðiblaðinu og er það sem fyrr hið veglegasta, 124 blaðsíður sem margar hverjar bjóða upp á hreint frábærar myndir.
Ritstjóri og ábyrgðarmaður Gunnar Bender, Marteinn Jónasson er útgáfustjóri.
Þórðar Péturssonar frá Húsavík er minnst, en Doddi eins og hann var kallaður lést í haust. Hann þekkti Laxá eins og vasana í buxum sínum og nutu margir leiðsagnar við veiðar í drottningunni. Flugur skóp hann og þær gáfu og gefa fiska.
Sigfinnur Jónsson Sauðkrækingur er í viðtali en hann hefur veitt í 81 ár! Inga Lind fjölmiðlakona segir frá, og lesendnum er boðið með í heiðagæsaveiði, sagt frá risanum í Svartá, rauðhjartarveiðum í Póllandi, og við bregðum okkur með sælkerum í veiði til Skotlands.
Fjölbreytt og skemmtilegt blað og það er ástæða til þess að hrósa útgefendum fyrir val á pappír sem blaðið er prentað á, hann er af miklum gæðum sem skilar myndum og texta afar vel.