Smíðar skartgripi úr silfri og íslenskum steinum

Guðmundur Bjarnason mætir á vinnustofuna snemma á morgnana og smíðar frameftir degi. Mynd/Daníel Sta…
Guðmundur Bjarnason mætir á vinnustofuna snemma á morgnana og smíðar frameftir degi. Mynd/Daníel Starrason.

Guðmundur Bjarnason er 89 ára skipasmiður og starfaði í áratugi hjá Slippstöðinni á Akureyri. Hann býr nú í Lögmannshlíð og gerir skartgripi úr silfri og íslenskum steinum. Guðmundur var í áhugaverðu spjalli á Fésbókarsíðu Akureyrarbæjar þar sem hann ræddi áhugamálið og lífið á Hlíð.

„Eftir morgunmatinn sest ég hérna og dunda fram að hádegi. Svo byrja ég aftur eftir hádegi, stundum í klukkutíma og stundum þrjá. Ég kaupi silfurplöturnar og silfurvírinn frá Bandaríkjunum, svo klippi ég það niður og geri það sem ég vil. Iðnaðarmaður sem slíkur vill hafa eitthvað að gera, þetta er í blóðinu og ég get smíðað hvað sem mér dettur í hug,“ segir Guðmundur.

Hann er fæddur á Bíldudal en hefur búið á Akureyri frá barnsaldri. Eftir nám í skipasmíði lá leiðin í Slippstöðina. „Upphaflega var megin parturinn af fyrirtækinu í viðgerðum. Á vorin var unnið til tíu á kvöldin í þrjá, fjóra mánuði við að gera klárt fyrir síldarvertíðina. En nýsmíðin var það sem stjórnendur vildu, enda gaf hún mikla vinnu og þegar mest lét vorum við um 440 manns. Árið 1970 var ég gerður verkstjóri í nýsmíði og var í því starfi þangað til ég hætti.“

En hvernig var Akureyri á þessum tíma? „Mannlífið var gott, enda þekkti fólk ekkert annað. Það voru náttúrulega víða í bænum kindur og kýr. Einn húsgagnasmiðurinn var með gott verkstæði og marga menn í vinnu en frúin sá um kindurnar og mjólka kýrnar. Það sem vantaði hjá öllum var að hafa meiri vinnu, þá gat fólk keypt meira,“ segir Guðmundur og bætir við að bæjaryfirvöld þess tíma hafi skort framtíðarsýn. „Það hefði þurft að skipuleggja bæinn strax fyrir að lágmarki 20 til 50 þúsund manns. Um leið og skipulagið er komið fara menn að sækjast í lóðir og byggja. Ef Akureyrarbær hefði haft nægar lóðir frá fyrstu hendi þá hefði bærinn orðið margfalt sterkari,“ segir hann.

Guðmundur eignaðist fjögur börn með konu sinni, Kristínu Kjartansdóttur, sem lést í fyrra. „Ef þú nærð í góða konu þá hugsarðu þig tvisvar um áður en þú hættir við hana. Hún hélt vel á öllu og skapaði heimilið.“ Það var einmitt í gegnum Kristínu sem Guðmundur kynntist Lögmannshlíð. „Hún var hérna í þrjú ár og ég kom alltaf eftir hádegi og fór heim á kvöldin. Ég sótti um að fá að komast á sömu deild af því að stúlkurnar voru svo góðar, liprar og þægilegar og það var geysilega vel hugsað um hana,“ segir Guðmundur sem er nú sjálfur nýfluttur þangað.  

„Mér líkar ágætlega, þetta er alveg draumur. Það eina sem vantar hjá Akureyrarbæ er að byggja tvö eða þrjú hús eins og þetta handa gamla fólkinu.“ Guðmundur lætur ekkert stoppa sig, en hann veiktist fyrr á árinu og missti annan fótinn. „Ég vissi að það var ekkert annað að gera og sagði lækninum bara að taka stubbinn, ekkert kjaftæði! Svo fæ ég bara gervifót og fer að ganga. Ég nota hann mikið og það er ekkert mál. Það versta sem nokkur maður getur gert er að gera ekki neitt. Líkaminn er hannaður til að vinna og það þarf að halda honum við,“ segir Guðmundur Bjarnason.

 

Nýjast