Skjálfandaflói eitt besta hvalaskoðunarsvæði Evrópu samkvæmt grein í Lonely Planet

Hnúfubakur leikur sér við síðuna á Rib-báti GG hvalaferða. Farþegar fylgjast dolfallnir með. Mynd/Sa…
Hnúfubakur leikur sér við síðuna á Rib-báti GG hvalaferða. Farþegar fylgjast dolfallnir með. Mynd/Sarah Arndt.

Húsavík og hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants hvalaferðir (GG Hvalaferðir) komst í heimsfréttirnar nýverið þegar Lonely Planet fjallaði um hvalaskoðun á Skjálfandaflóa á Rib bátum fyrirtækisins.

Daniel Annisius, aðstoðar framkvæmdastjóri GG hvalaferða segir í samtali við Vikublaðið að umfjöllun sem þessi hafi gríðarlega mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu sem á í harðri samkeppni við Eyjafjarðarsvæðið.

„Þetta er rosalega gaman, ég vissi ekki af þessu sjálfur, mér var bara bent á greinina. Að fá svona góða kynningu frá svona risastórum miðli er alveg æðisleg. Að við séum samkvæmt þeim bara topp hvalaskoðunarsvæði í heiminum. Það gerist varla betra en það,“ segir Daníel

Höfundur í hvalskoðun á Rib bát

Kveikjan að greininni er sú að blaðamaðurinn Lauren Breedlove fór í hvalaskoðun á rib bátum GG hvalaferða fyrir nokkrum árum síðan. „Hún segir í greininni að hún sé búinn að fara í hvalaskoðun mjög víða undanfarin áratug og Húsavík og Skjálfandi sé toppurinn á kökunni,“ útskýrir Daníel en Lauren fer mjög fögrum orðum um upplifun sína á Skjálfanda. „Spennandi? Æsandi? Stórfenglegt? Já, allt þetta,“ er meðal lýsinga hennar.

Daníel segir að það sé ákaflega verðmætt að fá svona jákvæða umfjöllun um afþreyinguna sem verið er að bjóða upp á á svæðinu, sérstaklega fyrir landsbyggðina.

„Þetta er ekki bara frábær kynning fyrir okkur í GG hvalaferðum heldur öll hin fyrirtækin líka enda nefnir hún þau öll í greininn. Þetta er líka bara fyrst og fremst góð kynning fyrir svæðið,“ segir Daníel og bætir við að svona kynning sé gulls ígildi í harðnandi samkeppni.

Samkeppni að aukast

„Við erum náttúrlega í bullandi samkeppni við Eyjafjörð. Eins og t.d. í fyrra þá fengum við hátt í 50 bræludaga á meðan hægt var að sigla um Eyjafjörð flesta þá daga. Við erum alveg að sjá það að farþegar á skemmtiferðaskipum sem koma til Akureyrar eru ekki að skila sér í jafn miklum mæli til okkar og áður. Þar spilar inn í að það eru komin ein sjö fyrirtæki sem eru að sigla um Eyjafjörð og svo tilkoma Skógarbaðanna. Þá kemur svona umfjöllun að miklu gagni,“ segir Daníel og bætir við að það hafi verið jákvæðar fréttir að heyra að komum skemmtiferðaskipa til Húsavíkur fer fjölgandi. Farþegar þeirra skili sér í auknum mæli í hvalskoðun og aðra afþreyingu og þjónustu á svæðinu.

Hvetur til jákvæðni

Þá segir Daníel að það sé margt jákvætt um að vera á svæðinu og við mættum temja okkur meiri jákvæðni í umræðum um ferðaþjónustuna í nær samfélaginu. „Við megum alveg við því að tala svæðið okkar meira upp. Lokun veitingastaða yfir veturinn hefur t.d. oft ratað í umræðuna með neikvæðum hætti en það mætti tala meira um að það eru staðir sem eru með opið. Golfskálinn var að opna með nýja rekstraraðila, Baukurinn er á sínum stað, Lókal og fleiri. Það er alveg fullt um að vera þó það loki eitthvað. Svo er Norðursigling að byrja að sigla núna í byrjun mars og við förum af stað 1. apríl. Þannig að það er bjartsýni fyrir tímabilinu,“ segir Daníel og bendir á að bókunarstaðan sé með betra móti

„Þetta er svona bókunartímabilið okkar núna og við erum komin með betri bókunarstöðu miðað við sama tíma í fyrra. Við vonum bara að veðrið verði með okkur í liði,“ segir Daníel að lokum.

 

Nýjast