Mugison heldur tvenna tónleika á Græna hattinum
Eftir 30 tónleika hringferð um landið í sumar ætlar Mugison að enda í höfuðstað norðursins, Akureyri og verður á Græna hattinum um helgina, föstudagskvöldið 6. september og laugardagskvöldið 7. september. Segir um tónleika hringferðina að eiginkona Mugisons, Rúna Esradóttir, hafi beðið hann um að taka “Mjúkison" tónleika í þónokkur ár.
„Bara gítar og rödd, ekkert rugl, í anda Neil Yong og fleiri, í mesta lagi að fá einhverjar „brjálaðar“ bakraddir með í nokkur lög en annars að fagna einfaldleikanum og röddinni,“ segir um tónleikana. „Þó þetta verði einfalt og næs þá verður þetta engin jarðaför, þetta verður fjölbreytt og skemmtilegt,” segir Mugison sjálfur, sem þykir hið mesta ólíkindartól. Á tónleikunum má búast við sögum, sjónhverfingum og sprelligríni, en fyrst og fremst tónlist.
Mugison hóf ferilinn sem tölvutrúbador en eftir að Murr Murr sló í gegn árið 2004 hefur gítarinn legið um hálsinn á honum allar götur síðan. „Það er magnað hvernig Mugison nær að vera grófur sem gólandi Úlfur og blíður og meyr í næsta lagi. Það eru fáir tónlistarmenn sem hafa náð að setja á sig jafnmargar grímur og tekist á við jafn ólíka stíla í tónlistinni, allt frá raf, rokk, blús, popp, þungarokk, kántrí, barrokk, jazz yfir í þjóðlagastíl. Ekki missa af þessu einstaka tækifæri til þess að upplifa eitthvað nýtt og spennandi,“ segir um tónleika Mugisons sem hefjast kl. 22.00 bæði kvöldin.